Eftir Jón G. Hauksson
•
30. mars 2025
TIL HAMINGJU. Skáksveit Rimaskóla keppir á Norðurlandamóti skáksveita barnaskóla í Finnlandi í september nk. haust eftir að hafa sigrað á Íslandsmóti barnaskólasveita árið 2025. Þetta var fjölmennasta Íslandsmót barnaskólasveita til þessa og var haldið í Rimaskóla á dögunum. Alls settust 160 krakkar að tafli í íþróttahúsi skólans og áhuginn skein úr andliti allra. Þetta var hörkukeppni. Myndin hér að ofan er af A-sveit Rimaskóla, Íslandsmeisturunum 2025. Frá vinstri. Sigrún Tara, Emilía Embla, Emilía S. og Tristan Fannar. Mikið óskaplega getum við Grafarvogsbúar annars verið stoltir af skákáhuganum í hverfinu en þar hefur Helgi Árnason , fyrrum skólastjóri í Rimaskóla, unnið algert þrekvirki við að halda utan um starfið til margra ára. Hann er formaður skákdeildar Fjölnis. Rimaskólakrakkar fóru á algjörum kostum í mótinu. A-sveit skólans varð Íslandsmeistari 2025 eftir glæsilegan sigur í æsispennandi skákmóti. Tefldar voru 8 umferðir. Rimaskólakrakkar náðu forystu eftir 6 umferðir, bættu í og fengu 7 vinninga úr 8 síðustu skákunum. Allar Rimaskólasveitirnar komust á verðlaunapall og allir æfa krakkarnir Skákdeild Fjölnis; Íslandsmeisturum félagsliða. Það verður A-sveit skólans sem teflir á Norðurlandamótinu í Finnlandi í september. Úrslitin urðu annars þessi: A-sveit Rimaskóla - Íslandsmeistarar 2025 B-sveit Rimaskóla - 1. sæti B-sveita. C-sveit Rimaskóla - 1. sæti C-sveita. D-sveit Rimaskóla - 1. sæti D- sveita. (Erum því miður ekki með mynd af B-sveitinni).