Skák og mát. Það er svo sannarlega fyllsta ástæða til að vekja athygli á hinum mikla skákáhuga í Grafarvogi - og hann skilar sér svo sannarlega í sætum sigrum; titlum, tilhlökkun og ánægju. Þannig fóru Rimaskólakrakkar með himinskautum á Reykjavíkurmóti grunnskóla 2025 á dögunum og tóku alla titlana. Mótið er samstarfsverkefni ÍTR og TR.
Alls mættu 30 krakkar úr Rimaskóla á barnaskólastigum. Teflt var í tveimur flokkum, 1. - 3. bekk og 4. - 7. bekk.
Tefldar voru 7 umferðir og verðlaunagripir og nokkrir bikarar í boði. Í stuttu máli þá unnu skáksveitir Rimaskóla alla bikarana nokkuð örugglega.
Áhugi og ánægja einkenndi alla þá rúmlega 30 krakka sem tefldu fyrir Rimaskóla og smitaðist sú gleði inn í foreldrahópinn sem fylgdist vel með og mætti með krökkunum á skákstað.
Meðfylgjandi myndir eru af verðlaunahöfum og Rimaskólakrökkum að tafli. Vel gert; til hamingju Rimaskóli!