Eftir Jón G. Hauksson
•
24. mars 2025
Arna Ýrr Sigurðardóttir, sóknarprestur í Grafarvogi, ræddi um börn ljóssins í prédikun sinni í gær og kom meðal annars inn á þáttaröðina Adolescence á Netflix sem þykir taka mjög vel á hnífsstungum meðal unglinga sem er orðið stórt vandamál víða um heim. Arna Ýrr gagnrýndi sömuleiðis þau orð Elon Musk að samkennd væri einn helsti veikleiki Vesturlanda. Sagði hún að mannfræðingar hefðu bent á að sterk tengsl væru milli samkenndar og þess að siðmenning mótaðist. ÞÁTTARÖÐIN ADOLESCENCE En grípum niður í prédikun Örnu Ýrr um stóraukna glæpi í formi hnífstungna: „Ef þið hafið horft á þáttaröðina Adolescence á Netflix, sem er ein umtalaðasta þáttaröðin í dag, um 13 ára dreng sem myrðir skólasystur sína, þá sjáum við birtingarmynd þess sem getur gerst þegar sundrungin vex í okkar nærumhverfi. Þegar sundrungin birtist í skólastarfinu, í unglingahópunum okkar, og ákveðnir hópar fara að dýrka einhverja skakka mynd af því sem kallast karlmennska, en er ekkert annað en andi ofríkis og sundrungar. Þessi þáttaröð lýsir því hvernig þetta hefur áhrif á einstaklinga, hvernig sumir verða fórnarlömb, og aðrir gerendur, og hvaða ábyrgð við berum öll; foreldrar, fjölskylda, nærsamfélagið og skólinn.“ RIDDARAR KÆRLEIKANS - BÖRN LJÓSSINS „Og þarna getum við öll gert eitthvað og haft áhrif. Við þurfum að tala saman um hvað það er að vera manneskja. Hvernig okkur gengur öllum betur ef við vinnum saman, sýnum samkennd og leyfum okkur að sýna okkar veiku hliðar og hjálpa hvert öðru. Halla Tómasdóttir forseti hefur talað um riddara kærleikans. Páll postuli talar um börn ljóssins . Hann segir í texta dagsins: Eitt sinn voruð þið myrkur en nú eruð þið ljós í Drottni. Hegðið ykkur því eins og börn ljóssins – því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. Það eru þessir ávextir sem við viljum sjá, í samfélaginu okkar, og líka í okkar lífi. Góðvild, réttlæti og sannleikur. Þetta er ekki hugarfar þess sem beitir ofríki og sundrar og tvístrar. Þetta er ekki hugarfar þess sem telur að samkennd sé veikleiki. Þetta er hugarfar Krists. Verðið því eftirbreytendur Guðs svo sem elskuð börn hans, segir Páll postuli. Lifið í kærleika eins og Kristur elskaði okkur og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir okkur . Þetta er verkefnið okkar, og þetta eru verkfærin okkar: Samkennd, kærleikur, góðvild og réttlæti. Þá lifum við sem riddarar kærleikans, þá erum við sannarlega börn ljóssins.“