Eftir Jón G. Hauksson
•
28. mars 2025
Alexandara Briem borgarfulltrúi biðst í frétt á mbl.is afsökunar á hegðun sinni gagnvart einum fundargesti á hitafundinum í Grafarvogi í síðustu viku. Rætt er við Bergþóru Long, 28 ára Grafarvogsbúa, sem segir að Alexandra hafi verið ógnandi við móður sína á fundinum. „Mér þykir óskaplega leitt að hún hafi upplifað það þannig, enda fór ég og bað hana innilegrar afsökunar þegar ég áttaði mig á því að henni liði þannig. En það var aldrei tilgangur minn að vera ógnandi,“ segir Alexandra í viðtali við mbl.is í dag. „Í rauninni upplifði ég mig í þremur tiltölulega heitum samtölum samtímis þegar þetta kom upp. Það voru læti þarna og ég get alveg skilið að fólki líði illa yfir þessu. Mér leið ekkert vel heldur og auðvitað átti ég ekki að hækka róminn svona. Ég biðst afsökunar og mun reyna að passa mig í framtíðinni,“ segir Alexandra. Bergþóra var á fundinum ásamt móður sinni sem hún segist hafa haft það á orði að borgin væri ljúga varðandi uppbyggingu á samgöngum í kringum byggingarreit í Jöfurbás í Gufunesi þar sem tvær blokkir hafa risið. Í framhaldinu hafi Alexandra brugðist ókvæða við. Segir hún Alexöndru hafa „öskrað“ á móður sína, sett bringuna fram og baðað út höndum með kreppta hnefa. Hún er sögð hafa hækkað rödd sína og sagt „ertu að segja að ég sé að ljúga.“ Sjálf segist Alexandra ekki kannast við að hafa verið með kreppta hnefa en segir að sér þyki atvikið leitt og sér eftir því að hafa hækkað róminn. - JGH