Eftir Jón G. Hauksson
•
22. febrúar 2025
Tónaflóð í Grafarvogi . Það verður líf og fjör í kvöld þegar úrslitakvöld Söngvakeppninnar 2025 fer fram í kvikmyndaveri RVK Studios í Gufnesi og verður í beinni á RÚV klukkan 19:45. Sex lög keppa til úrslita. Á vef RÚV segir að Herra Hnetusmjör opni úrslitakvöldið og þá munu Käärjaa og Hera Björk stíga á svið. Kynnarnir þrír verða sem fyrr: Guðrún Dís Emilsdóttir, Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson . Meðfylgjandi mynd af þeim er fengin af vef RÚV og merkt Ragnari Visage. Lögin sem keppa til úrslita eru: 1. Like You – Ágúst. 2. Aðeins lengur – Bjarni Arason. 3. Fire – Júlí og Dísa. 4. RÓA – VÆB. 5. Words – Tinna. 6. Set Me Free – Stebbi Jak. Kosningafyrirkomulagið er með breyttu sniði í ár. Það verður ein símakosning sem mun vega helming á móti atkvæðum alþjóðlegrar dómnefndar. Síðustu ár hefur einvígi milli tveggja efstu laga ráðið úrslitum. Käärijä treður upp Úrslitakvöldið verður viðburðaríkt og boðið verður upp á ýmis skemmtiatriði auk laganna sex sem keppa. Finnski Eurovision söngvarinn Käärijä, sem lenti í 2. sæti í Eurovision 2023 með lagið Cha Cha Cha, kemur fram ásamt sænsku sveitinni Hooja. Herra Hnetusmjör mun opna kvöldið með vinsælasta laginu á Íslandi í dag og Hera Björk, sigurvegari Söngvakeppninnar í fyrra, syngur á sviðinu áður en hún afhendir verðlaunagripinn til sigurvegara kvöldsins. Úrslit Söngvakeppninnar hefst í beinni útsendingu á RÚV í kvöld klukkan 19:45 og munu þá Gunnar Birgisson og Edda Sif Pálsdóttir fara yfir stemninguna fyrir keppnina með góðum gestum. Í lok kvöldsins verður ljóst hver verður fulltrúi Íslands í Eurovision í Basel í maí. Höfundar þriggja laga hafa ákveðið að flytja lag sitt á ensku, tvö verða áfram flutt á íslensku og eitt á bæði íslensku og ensku. ALÞJÓÐLEGA DÓMNEFNDIN ÞANNIG SKIPUÐ Sietse Bakker, yfirframleiðandi Eurovision 2021 - Holland Niamh Kavanagh, söngkona og sigurvegari Eurovision 1993 - Írland Ersin Parlak, tónlistarumboðsmaður og fjölmiðlafulltrúi í Eurovision - Tyrkland Saba, söngkona í Eurovision 2024 - Danmörk Peter Fenner, Eurovision-sérfræðingur - England Maria Sur, söngkona í Melodifestivalen 2024 - Úkraína Damir Kedžo, Eurovision-söngvari – Króatía