Eftir Jón G. Hauksson
•
1. mars 2025
Biðlaun Ragnars Þórs Ingólfssonar, fráfarandi formanns VR, eru auðvitað eitt af málum vikunnar. Segja má að hann hafi ekki átt sjö dagana sæla - eða það hefði maður haldið - eftir að upplýst var að hann hefði beðið um að fá sex mánaða biðlaun, eingreiðslu upp á næstum 10 milljónir í janúar sl., án þess þó að hann biði eftir nýju starfi enda orðinn þingmaður fyrir Flokk fólksins og fékk þess utan væna launagreiðslu, tvöfaldan tékka vegna fyrirframgreiðslu, frá Alþingi í desember líkt og aðrir nýkjörnir þingmenn. Engan bilbug er hins vegar að finna á Ragnari vegna þessara biðlauna þótt hann hafi gagnrýnt það á sínum tíma þegar formaður VR fékk slík biðlaun – sem eru í starfskjörum formanna félagsins. Ragnar hefur sömuleiðis verið áberandi verkalýðsforingi ásamt Önnu Sólveigu Jónsdóttur í Eflingu og mjög gagnrýninn á ofurlaun og sjálftöku stjórnenda. En það sem helst nú varast vann, varð þó að koma yfir hann, eins og sálmaskáldið orðaði það. Í krísu Ragnars hefur hann beitt óvenjulegri krísustjórnun. Hann segist hafa fullan skilning á að þetta mál hans slái fólk illa. Þetta ruglar okkur hin vissulega í ríminu því halda mætti að þarna talaði gamli foringinn með gamla baráttuneistann – og nýfægðu spjöldin – og væri því á móti þessari greiðslu til hins fráfarandi formanns sem sestur væri á þing. En líklegast eru það rök Ragnars fyrir ásókn hans í þessar 10 milljónir í janúar sem hafa komið flatt upp á flesta – nema Finnbjörn Hermannsson hjá ASÍ og Kristján Þór Snæbjarnason, þingmann og fráfarandi formann Rafniðnaðarsambandsins sem verður þar á biðlaunum fram á vor þótt nýkjörinn þingmaður sé fyrir Samfylkinguna. Ragnar hefur nefnilega orðað það svo að hann þyrfti á fénu að halda til að setja í sérstakan neyðarsjóð fjölskyldunnar. SOS-hjálp í neyð. Sem verkalýðsforingi væri hann jú búinn að segja of mikið og gagnrýna ofurlaun og atvinnurekendur – og ekki auðvelt að fá vinnu hjá þeim eftir það sem á undan væri gengið. Vandinn við þessi Ragnarsrök er sá að hann var kjörinn á þing í endaðan nóvember og kominn þar á launaskrá þegar í desember. Þar fær hann svo aftur biðlaun þegar hann hverfur af þingi, hvenær sem það verður. En Ragnarsrökin voru ekki tæmd. Það var eiginlega alslemma í þessu; hann átti þetta skilið! – og dró upp úr hattinum gamla trixið um fórnfýsina! Hann hefði jú afsalað sér launahækkunum upp á samtals 400 þús. á mánuði. Með 1,3 milljónir á mánuði fyrir formennskuna í VR hefði hann afsalað sér þar 300 þús. kr. launahækkun á mánuði og þess utan hefði hann beðið um helmings launalækkun sem formaður, LIV, Landssambands íslenskra verslunarmanna, og hefði sambandið fallist á að lækka laun hans um 25%, eða um 100 þús. á mánuði, þ.e. úr 400 þús. í 300 þús. kr. á mánuði. Í röksemdafærslu sinni setti Ragnar reiknivélina í gang, sló inn árafjöldann og fann út að hann hefði fórnað í kringum 40 milljónum í það heila yfir tímabilið. Þarna verður maður að vera meðvirkur; hver á jú ekki skilið sex mánaða biðlaun eftir slíka fórnfýsi þótt kominn sé í nýtt starf sem þingmaður á góðum launum? Nafni Ragnars, Reykásinn, var alltaf á móti spillingu – þangað til hann komst í hana sjálfur. Ragnar Þór skilur hins vegar mæta vel að mál hans slái fólk illa, gæti talist græðgi, og þess vegna bað hann um biðlaunin í janúar. Augljóslega verða engin ragnarök, heimsendir, út af þessu máli en hugtakið Ragnarsrök gæti fest sig í sessi. - Jón G. Hauksson