Á förnum vegi


Eftir Jón G. Hauksson 26. mars 2025
TIL HAMINGJU. Emilía Sigurðardóttir í Rimaskóla sigraði með glæsibrag á Barnaskákmóti KR um síðustu helgi. Hún vann allar sínar skákir og lenti ein í efsta sæti. Þetta var glæsilegt skákmót hjá KR-ingum og auðvitað boðið upp á pítsur og síðan var teflt af miklum eldmóð í tveimur flokkum. Emilía er ein virkasta skákkona landsins á barnaskólaaldri og náði verðlaunasæti á síðustu Bikarsyrpu TR fyrr í mánuðinum. Emilía er í einstökum hópi Rimaskólastúlkna sem hafa verið nær ósigrandi á öllum grunnskólamótum. Til hamingju Emilía með glæsilegan sigur!

Eftir Jón G. Hauksson 25. mars 2025
SUNDAGÖNG í stað Sundabrautar. Stofnaður hefur verið baráttuhópur á Facebook fyrir því að byggja frekar jarðgöng - Sundagöng - en Sundabraut. Grafarvogsbúinn og þingmaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson er á meðal þeirra sem standa fremstir í flokki fyrir þessu baráttumáli sem svo sannarlega snertir alla Grafarvogsbúa. Guðlaugur hefur látið gera meðfylgjandi teikningu af hugsanlegri leið jarðgangnanna. FB-síða hópsins má finna hér með því að smella - annars er hún þessi: https://www.facebook.com/share/1KkSrDnVK3/ FRÁ LAUGARNESI UPP Á KJALARNES Á síðunni segir: „Þetta eru jarðgöng sem myndu liggja frá Laugarnesi upp á Kjalarnes og kæmu í stað fyrirhugaðra Sundabrautar. Hafa mætti munna við Laugarnes, Viðey, Grafarvog, Geldinganes, Mosfellsbæ, Álfsnes og á Kjalarnesi. Heildarkostnaður við brúarleiðina var árið 2021 metinn um 69 milljarðar króna, samanborið við 83 milljarða króna fyrir jarðgöng. Tölur hafa hækkað síðan en þetta er hlutfallslega ekki mikill munur þegar gæði og notaðgildi eru borin saman og litið til framtíðar. Jarðgöng eru mun betri kostur út frá umhverfissjónarmiðum og notagildi. Þau draga úr sjónrænum áhrifum, varðveita byggingarland í Reykjavík og Mosfellsbæ, stuðla að betri hljóðvist og stytta leiðina meira en braut. Mikilvægt er að Sundagöng verði skoðuð betur sem valkostur við Sundabraut áður en endanleg ákvörðun um framkvæmdir er tekin .“ - JGH
Eftir Jón G. Hauksson 24. mars 2025
INNLIT Í FYRIRTÆKI Mistur við Stórhöfða 33 er heilsubúðin með dulúðlega nafnið. Það er líka einhver seiðandi stemning þegar inn er komið því þetta er heill heimur út af fyrir sig og þarna kennir margra grasa; eðlilega, þetta er heilsubúð. Allt byrjaði þetta sem lítið ævintýri fyrir ellefu árum í bílskúrnum hjá Þórunni Björk Pálmadóttur og hefur heldur betur undið upp á sig. Þetta er bæði heildverslun og smásala.
Eftir Jón G. Hauksson 23. mars 2025
Mikið var gaman að rekast á þau hjón og Grafarvogsbúa, Hugrúnu Sif Símonardóttur og Kristján Guðjónsson, þar sem þau röltu um á göngustígnum nálægt Gullinbrú í góðviðrinu í hádeginu og viðruðu í leiðinni hundinn sinn, hann Kanil. Kanill er sex ára blendingur, Púddle og Bichon frise. Það vakti auðvitað athygli mína að Kanill var í þessari fínu yfirhöfn sem kemur til af því að hann er víst svolítið kulvís karlinn. Í mestu vetrarkuldunum þarf eiginlega að neyða hann út en þegar hlýnar í lofti færist hann allur í aukana og þá fær hann jafnvel þrjár góðar gönguferðir á dag. Hann var hinn rólegasti þegar Kristján tók hann í fangið fyrir myndatökuna. Gaman að spjalla við þau hjón. Poodle er sagður eftirtektarsamur hundur, hugsuður og auðveldur í þjálfun. Þeir eru frábærir fjölskylduhundar og eitt einkenni þeirra er feldurinn. Bichon frise er sagður glaðlyndur, fjörugur og blíður smáhundur sem nýtur síaukinna vinsælda hér á landi. Hann er duglegur og hefur einstaklega gaman af að vera í námunda við fólk.
Eftir Jón G. Hauksson 23. mars 2025
Það er vor í lofti og það fór ekki á milli mála þegar gönguferð sunnudagsins var farin í hádeginu áðan. Laukar að springa út og gróður að taka við sér. Nú vonar maður svo sannarlega að það komi ekki erfiður hvellur á næstunni, hvað þá páskahret, en páskarnir eru svolítið seint á ferð að þessu sinni, eða dagana 20. og 21. apríl. Hvað um það, lagið Vertu til kom svo sannarlega upp í hugann í göngutúrnum þegar angan vorsins lá í loftinu. Þetta er rússneskt þjóðlag. Textinn er eftir Tryggva Þorsteinsson. Vertu til Vertu til er vorið kallar á þig, vertu til að leggja hönd á plóg. Komdu út því að sólskinið vill sjá þig sveifla haka og rækta nýjan skóg, sveifla haka og rækta nýjan skóg. Tryggvi Þorsteinsson / Rússneskt þjóðlag.
Eftir Jón G. Hauksson 20. mars 2025
Verið er að reisa nýja bílaþvottastöð á stæði Olís við Gullinbrú. Þarna aka auðvitað margir framhjá á hverjum degi og hafa spurt sig hvað sé eiginlega í gangi. Svarið er komið; bílaþvottastöð. Eflaust verða viðtökurnar góðar - þetta er í „alfaraleið“. Við sem erum frumbyggjar í Grafarvogi og höfum búið í hverfinu frá því á níunda áratugnum munum að þarna stóð eitt sinn lítið hús sem nýtt var sem banki; útibú Landsbankans. Það var fyrir tíma heimabankanna og eðlilega margur kúnninn sem lagði leið sína í litla útibúið og tók þátt í biðraðamenningunni - en um mánaðamót náðu biðraðirnar oftar en ekki út á planið. Þarna voru samt aðeins þrír eða fjórir starfsmenn og sinntu líka bílalúgunni; það var nefnilega hægt að aka upp að lúgunni og afhenda reikningana en að vísu var ekki hægt að fá sér eina pylsu með öllu á meðan. Eitt sinn banki, nú þvottastöð. Sem sé peningar og þvottur - en að sjálfsögðu ekki peningaþvætti þótt bílar kosti skildinginn.
Eftir Jón G. Hauksson 18. mars 2025
Það er heldur betur að hita í kolunum og nú stefnir í stórfund um þéttingu byggðar í Grafarvogi í Borgum við Spöngina nk. fimmtudag, 20. mars kl. 17. Á fundinum verða drög að tillögu að aðalskipulagsbreytingu um fjölgun íbúða í grónum hverfum kynnt. Stóra spurningin núna er þessi: Ætlum við Grafarvogsbúar að láta þetta yfir okkur ganga og kyngja þessu þegjandi og hljóðalaust eða malda í móginn? Við birtum hér tvær myndir frá Arnóri Valdimarssyni , Verndum Voginn, þar sem hann greinir frá fyrirhugaðri íbúðabyggð á milli Melavegar og Borgavegar en þar er núna mjög fjölfarinn göngu- og hjólastígur - sem tengir m.a. við Gufunesið. ( Og gerum ráð fyrir að hér sé rétt með farið). Samkvæmt þessu má hvergi sjá auðan blett án þess að menn rífi ekki upp teikniblokkina.
Skoða fleiri fréttir
Share by: