BESTA ÁVÖXTUNIN. Ég hóf að dreifa blaðinu mínu Fjármál og ávöxtun í stórmarkaði og á bensínstöðvar í dag og auðvitað byrjaði ég í mínum kæru heimahögum; Grafarvoginum. Þetta er fríblað og um að gera að grípa eintak. Sá sem fékk fyrsta eintakið afhent var hinn geðþekki Jóhann Leví Jóhannsson starfsmaður Bónus í Spönginni en þar hefur hann unnið samfellt í ellfu ár og löngu þekktur á meðal Grafarvogsbúa fyrir lipurð og liðlegheit. Þegar ég kom með bunkann í Bónus heilsuðumst við að venju og að sjálfsögðu rétti ég honum fyrsta eintakið.
Grafarvogsbúar geta nálgast blaðið „innanbæjar“ í Bónus, Hagkaup, Olís og N1.
Blaðið er sneisafullt af upplýsingum um raunávöxtun allra innlánsreikninga á Íslandi og allra sjóða verðbréfafyrirtækjanna - sem og ávöxtun lífeyrissjóðanna. Þá birti ég eignir og skuldir heimilanna, hversu mikils virði bílafloti landsmanna er sem og hvað heimilin eiga í bankainnstæðum og verðbréfum.
Þá er birt yfirlit yfir ávöxtun hlutabréfa allra skráðra fyrirtækja í Kauphöllinni - þ.e. hve gengi þeirra hækkaði mikið á síðasta ári - og svo eru auðvitað upplýsingar um gull og græna skóga. En gullið hefur hækkað um 55% á síðustu fjórtán mánuðum og er únsan í fyrsta sinn komin yfir þrjú þúsund dollara.
Þetta er áttunda árið sem ég gef þetta blað út og tek saman yfirlit yfir raunávöxtun allra innlánsreikninga og sjóða verðbréfafyrirtækjanna en þar er jú af nokkru að taka. Grípið eintak - gjörið svo vel.
Það tók sig raunar upp gömul nostalgía þegar ég skaust í PrentmetOdda fyrr í vikunni til að ná í blaðið en ég var samfellt í tuttugu og fimm ár ritstjóri Frjálsrar verslunar og í um tólf ár annar tveggja ritstjóra Skýja. Á meðfylgjandi mynd er ég með Guðmundi Óskarssyni, framleiðslustjóra PrentmetsOdda.
Gamla, góða prentlyktin er í bílnum þessa dagana. - JGH
Með Guðmundi Óskarssyni, framleiðslustjóra PrentmetsOdda, þegar ég náði í fyrstu eintökin í prentsmiðjunni fyrr í vikunni.
Blaðið er sneisafullt af upplýsingum um raunávöxtun allra innlánsreikninga á Íslandi og sjóða allra verðbréfafyrirtækjanna - sem og ávöxtun lífeyrissjóðanna, eignir og skuldir heimilanna, hversu mikils virði bílafloti landsmanna er og auðvitað koma gull og grænir skógar við sögu í blaðinu.