INNLIT Í FYRIRTÆKI
Mistur við Stórhöfða 33 er heilsubúðin með dulúðlega nafnið. Það er líka einhver seiðandi stemning þegar inn er komið því þetta er heill heimur út af fyrir sig og þarna kennir margra grasa; eðlilega, þetta er heilsubúð. Allt byrjaði þetta sem lítið ævintýri fyrir ellefu árum í bílskúrnum hjá Þórunni Björk Pálmadóttur og hefur heldur betur undið upp á sig. Þetta er bæði heildverslun og smásala.
Það er létt yfir þeim stöllum í Mistri; Þórunni Björk Pálmadóttir, til vinstri, og Lindu Sveinbjörnsdóttur. Þórunn er eigandi Misturs og stofnaði heilsubúðina í bílskúr heima hjá sér í Foldahverfinu fyrir ellefu árum.
„Við seljum í apótek og heilsubúðir en hingað koma líka fastagestir úr Grafarvoginum og hafa á orði að þeir nenni ekki niður í bæ; enda miklu auðveldara að rúlla við hjá okkur,“ segir Þórunn.
En hvernig kom þetta nafn til? Mistur? „Ég lét hugann reika og það voru endalausar uppástungur með nafn en einhvern veginn endaði ég alltaf á þessu nafni. Ég veit ekki hvað það var, ef til vill þetta dulúðlega við nafnið sem greip mig,“ segir Þórunn Björk.
Þetta er þrælskemmtileg verslun og drekkhlaðin af heilsuvörum, lífrænum vörum og ýmsum forvitnilegum smáhlutum, tækjum og tólum - allt tengt heilsunni. „Við erum með lífræna vottun frá vottunarstofunni Tún.“
Margs konar Moya-te.
Með Þórunni í versluninni starfar Linda Sveinbjörnsdóttir. Þær eru báðar utan af landi en Grafarvogurinn - og hið dásamlega útsýni sem þær hafa yfir voginn úr versluninni heillar þær. Linda er frá Bolungarvík en Þórunn er alinn upp í Vestmannaeyjum.
„Ég vann lengi hjá Kolbrúnu grasalækni, Jurtaapótekinu, sem og í Heilsuhúsinu, áður en ég kom hingað til Þórunnar,“ segir Linda.
Vörumerkin eru margs konar. Moya-teð er vinsælt sem og engiferte sem hægt er að kaupa samkvæmt vigt. Svo eru þarna fjöldinn allur af vítamínum. En þarna er líka hægt að næla sér í inniskó ef manni er kalt á tánum, teppi, klakabox, eplaskera, kústa og áfram mætti telja af frumlegum vörum.
Ég vissi svo sem ekki á hverju ég ætti von þegar ég leit þarna inn. En Mistur kom mér á óvart - svo mikil er fjölbreytnin. - JGH
Vítamín.
Klakabox og eplaskeri.
Gamaldags vendir sópa best.