Mikið var gaman að rekast á þau hjón og Grafarvogsbúa, Hugrúnu Sif Símonardóttur og Kristján Guðjónsson, þar sem þau röltu um á göngustígnum nálægt Gullinbrú í góðviðrinu í hádeginu og viðruðu í leiðinni hundinn sinn, hann Kanil. Kanill er sex ára blendingur, Púddle og Bichon frise.
Það vakti auðvitað athygli mína að Kanill var í þessari fínu yfirhöfn sem kemur til af því að hann er víst svolítið kulvís karlinn. Í mestu vetrarkuldunum þarf eiginlega að neyða hann út en þegar hlýnar í lofti færist hann allur í aukana og þá fær hann jafnvel þrjár góðar gönguferðir á dag.
Hann var hinn rólegasti þegar Kristján tók hann í fangið fyrir myndatökuna. Gaman að spjalla við þau hjón.
Poodle er sagður eftirtektarsamur hundur, hugsuður og auðveldur í þjálfun. Þeir eru frábærir fjölskylduhundar og eitt einkenni þeirra er feldurinn.
Bichon frise er sagður glaðlyndur, fjörugur og blíður smáhundur sem nýtur síaukinna vinsælda hér á landi. Hann er duglegur og hefur einstaklega gaman af að vera í námunda við fólk.