Það er vor í lofti og það fór ekki á milli mála þegar gönguferð sunnudagsins var farin í hádeginu áðan. Laukar að springa út og gróður að taka við sér. Nú vonar maður svo sannarlega að það komi ekki erfiður hvellur á næstunni, hvað þá páskahret, en páskarnir eru svolítið seint á ferð að þessu sinni, eða dagana 20. og 21. apríl. Hvað um það, lagið Vertu til kom svo sannarlega upp í hugann í göngutúrnum þegar angan vorsins lá í loftinu. Þetta er rússneskt þjóðlag. Textinn er eftir Tryggva Þorsteinsson.
Vertu til
er vorið kallar á þig,
vertu til
að leggja hönd á plóg.
Komdu út
því að sólskinið vill sjá þig
sveifla haka
og rækta nýjan skóg,
sveifla haka
og rækta nýjan skóg.
Tryggvi Þorsteinsson / Rússneskt þjóðlag.
Gróðurinn er svo sannarlega að taka við sér - vonandi kemur ekki erfiður vetrarhvellur á næstunni.
Sunnudagurinn 23. mars 2025 - og mánuður enn í páska.
Svei mér þá ef grasið er ekki byrjað að grænka.
Það sígræna svíkur ekki.