Guðrún Kvaran, prófessor emeritus í íslensku við Háskóla Íslands, gerir alvarlega athugasemd við það að Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, noti ekki fullt nafn við undirskrift sína heldur skrifi Halla Tomas. Um þetta er athyglisverð frétt í Morgunblaðinu í morgun. „Það er alveg út í bláinn,“ segir Guðrún.
Athyglisverð frétt - og undirskriftin sannast sagna svolítið sérstök af forsetanum.
Þetta er sannast sagna mjög athyglisverð frétt og undirskrift af hálfu forsetans. Fram kemur í Morgunblaðinu að það hefði vakið athygli meðal gesta á 75 ára afmælistónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands að í ávarpi Höllu í dagskrárriti tónleikanna ritaði hún undir „Halla Tomas“ í stað þess að nota fullt nafn sitt.
Morgunblaðið segir frá því að þau svör hafi fengist frá forsetaembættinu að Halla hefði notað umrædda undirskrift um áratugaskeið og haldið henni óbreyttri eftir að hún tók við embætti forseta.
„Það er ekkert betra,“ segir Guðrún við blaðið. „Hún var mikið í erlendum samskiptum og þá var kannski erfitt að hafa „dóttir“. En hún býr á Íslandi og er að skrifa undir íslenskt plagg. Þá á hún að skrifa undir „Halla Tómasdóttir“ og ekkert annað.“