Biskup Íslands, sr. Guðrún Karls Helgudóttir, prédikaði í þéttsetinni Skálholtskirkju í sunnudagsmessu í gær. „Ég tók þátt í dásamlegri messu og fékk það hlutverk að prédika og blessa söfnuðinn - og þjónaði ásamt sr. Kristínu Þórunni sóknarpresti, Bergþóru Ragnarsdóttur djákna og sr. Kristjáni Björnssyni vígslubiskupi. Þá má ekki gleyma organistanum Jóni Bjarnasyni og Kór Skálholtskirkju sem buðu upp á fagra tónlist og leiddu okkur í söng. Að messu lokinni var boðið upp á súpu og heimabakað brauð á veitingastanum Hvönn,“ segir biskup um heimsókn sína í Skálholtskirkju í gær.
Dr. Gunnlaugur A. Jónsson, fyrrum prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands í áratugi, sótti messuna og segir í færslu á FB að í áheyrilegri prédikun hafi biskup ekki síst fjallað um hamingjuna. Þá hefur hann orð á því hve altaristaflan í Skálholtskirkju sé stórkostlegt listaverk og honum hugleikin.
SYSTURNAR TRÚ OG LIST
„Í guðsþjónustunni að þessu sinni naut ég auk helgihaldsins sjálfs þess að horfa á hina mögnuðu altaristöflu Nínu Tryggvadóttur og lifa mig inn í verkið, þar sem Kristur opinberar sig, nánast eins og hann komi í gegnum vegginn. Stórkostlegt listaverk þar sem systurnar trú og list haldast í hendur með áhrifamiklum hætti.“
Við birtum hér myndir sem Gunnlaugur tók af biskupi í prédikunarstólnum í Skálholtskirkju í messunni sem og af hinni tignarlegu Skálhotskirkju í blíðviðrinu í gærmorgun.
Skálholtskirkja skartaði sínu fegursta í blíðviðrinu í gær. (Ljósmynd: Gunnlaugur A. Jónsson).
Talið frá vinstri: Herdís Friðriksdóttir, framkvæmdarstjóri Skálholts, Þorsteinn Pálsson, formaður stjórnar Skálholts, sr. Kristján björnsson, vígslubiskup í Skálholti, og sr. Eva Björk Valdimarsdóttir biskupsritari. (Ljósmynd: Biskupsstofa).