David Lynch er allur og ég skissaði upp kauða í morgun, skrifaði listamaðurinn Reynir Hauksson í janúar sl. og smellti þessari ágætu mynd á FB. Þessi mynd vakti athygli mína á sínum tíma og ég mátti til með að draga hana fram þegar ég fékk fréttatilkynningu um að Reynir yrði með myndlistarsýningu á Hvanneyri um þessa helgi.
Ekki veit ég til þess að hann hafi nein tengsl við Grafarvoginn; hann er Borgfirðingur og þekktur fyrir frábæra gítarkunnáttu og myndlistarhæfileika. Sýningin á Hvanneyri heitir Fólkið, fjöllin og vatnið og verður opnuð klukkan 20 nk. föstudagskvöld, 21 mars í Skemmunni á Hvanneyri og verður aðeins opin um helgina.
Reynir hefur getið sér gott orð sem einn helsti túlkandi Flamenco- og spænskrar tónlistar á Íslandi en síðustu ár hefur hann einbeitt sér meira að myndlist.
Hann útskrifaðist frá Madrid Academy of Art síðasta sumar og sýningin á Hvanneyri er hans fyrsta myndlistarsýning á Íslandi. Í listmálun sinni fæst Reynir við realisma þar sem landslag Borgarfjarðar og andlitslag Borgfirðinga er dregið fram á einstakan og skapandi hátt.
En aðeins nánar um David Lyncs og Reyni. „Frábær og einstakur kvikmyndagerðarmaður sem skilur eftir sig gríðarlega arfleið. Hann náði almennum vinsældum með framúrstefnu myndum sem er nú ekki algengt að menn nái. Ég man þegar ég sá Muholland Drive fyrst á RÚV sem unglingur. Skildi ekki baun en var samt dáleiddur allan tímann. Einhverjum árum síðar horfði ég á Twin Peaks-þáttaröðina og hafði gaman af því að heyra Öxar við ána sungið. Ég skissaði kauða upp í morgun,“ skrifaði Reynir 16. janúar á FB eftir fregnina um andlát Davids Lynch.
Reynir hefur getið sér gott orð sem einn helsti túlkandi Flamenco- og spænskrar tónlistar á Íslandi en síðustu ár hefur hann einbeitt sér meira að myndlist.