Vængir Júpíters í Grafarvogi: Knattspyrnulið stofnað af vinum fyrir vini – venslað Fjölni

20. febrúar 2025

 Á myndinni frá vinstri: Ayyoub Anes Anbari, Andri Freyr Björnsson, Aron Heimisson, Atli Fannar Hauksson - allir 2001 árgangur með bikarinn þegar liðið vann 4. deildina 2023.


Vængir Júpíters. Eftir að vefurinn fór í loftið í gær barst mér fljótlega ábending um skemmtilegt knattsyrpnulið hér í Grafarvogi sem héti Vængir Júpíters. Skemmtilegt nafn og svo sannarleg kraftmikið. Ég viðurkenni að ég hafði ekki heyrt um það áður þrátt fyrir að hafa búið í Grafarvogi í 37 ár.  Liðið er í fullum undirbúningi fyrir Íslandsmótið í sumar og hefur leik í Lengjubikarnum nk. laugardag, 22. febrúar.


En hvaða kröftuga lið er þetta? spurði ég - og bað tvo leikmenn liðsins, þá Atla Fannar Hauksson og Aron Heimisson, um stutt ágrip af sögu félagsins og urðu þeir við þeirri ósk minni:


„Vængir Júpíters er knattspyrnulið í Grafarvoginum sem stofnað var um aldamótin, en í raun endurvakið árið 2014 í þeirri mynd sem það er núna. Liðið er venslað Fjölni og samanstendur að mestu leyti af uppöldum leikmönnum Fjölnis. Það er í miklu samstarfi við 2. flokk Fjölnis þar sem efnilegir leikmenn fá að spila með liðinu til að öðlast reynslu í meistaraflokksbolta. 


Vængirnir hafa leikið í þriðju og fjórðu deildinni frá 2014. Síðustu ár hafa einkennst af miklu flakki milli þessara deilda eftir langa dvöl í þeirri þriðju. Í sumar verður liðið með í fjórðu deildinni eftir fall úr þeirri þriðju síðastliðið haust. 


Vængir hafa einnig reynt fyrir sér á Futsal-sviðinu. Árin 2018 og 2019 voru góð hjá Vængjum þar sem liðið vann Íslandsmótið og keppti því fyrir hönd Íslands í UEFA Champions League í Futsal þar sem haldið var út fyrir landsteinana til Svíþjóðar og Kýpur.


LIÐIÐ STENDUR FYRIR STERKA VINÁTTU

Vængir Júpíters hafa alltaf staðið fyrir sterkri vináttu. Liðið var stofnað af vinum fyrir vini. Þetta hefur haldið sér og í dag eru þetta allt vinir úr 112 Grafarvogi og því allir með miklar tilfinningar og hjarta til hverfisins og eru klárir að sýna það í formi ástríðu á fótboltavellinum. 


Liðið er núna í fullum undirbúningi fyrir Íslandsmótið í sumar og hefur leik í Lengjubikarnum 22. febrúar. Þar verða spilaðir nokkrir leikir áður en Íslandsmótið hefst 8. maí.


 Auk þessara keppna eru tvær bikarkeppnir á dagskrá í sumar; Mjólkurbikarinn og Fótbolti.net-bikarinn.

 

Næstu leikir í Lengjubikar:

22.2 Vængir Júpíters – Uppsveitir kl. 16:00 @ Egilshöll

01.3 Skallagrímur – Vængir Júpíters kl. 17:00 @ Akraneshöll

13.3 Vængir Júpíters – Smári kl. 20:00 @ Egilshöll

 

Fyrstu leikir í Íslandsmóti:

08.5 KH – Vængir Júpíters kl.19:15 @ Valsvöllur

15.5 Kría – Vængir Júpíters kl. 19:15 @ Vivaldivöllur

24.5 Vængir Júpíters kl. 13:30 @ Egilshöll


Vængir Júpíters hafa alltaf staðið fyrir sterkri vináttu. Liðið var stofnað af vinum fyrir vini.

Vængir Júpíters er kraftmikið nafn og merki félagsins, efst uppi til vinstri á myndinni, er fallegt og vel hannað.

Share by: