Í túnfætinum heima: 90 þús. fermetra verslunarkjarni á Korputúni á stærð við Skeifuna
Það er margt að gerast í túnfætinum heima, eins og maðurinn sagði. Fasteignafélagið Reitir áformar að byggja 90 þúsund fermetra af verslunar- og atvinnuhúsnæð á Korputúni – skammt frá Korputorgi – en landið tilheyrir Mosfellsbæ og er í svokölluðu Blikastaðalandi. Hverfið verður á stærð við Skeifuna og teygir sig niður að Korpunni. Gatnagerð hófst sl. haust en byggingaframkvæmdir hefjast á næstunni.
Fyrirtækin Jysk og Bónus voru fyrst til að tryggja sér húsnæði í Korputúni. Morgunblaðið hefur fjallað um þessi mál að undanförnu en allt svæðið verður um 40% stærra en Kringlan. Boðið verður bæði upp á sérsniðið húsnæði og tilbúið húsnæði mismunandi að stærð, eða allt frá 300 að 20 þús. fermetrum, segir á heimasíðu Reita.
Þess má geta að bygging IKEA í Kauptúni í Garðabæ er um 17 þúsund fermetrar. Á heimasíðu Reita er hægt að sjá frekari teikningar af svæðinu.
Og fyrir þá kylfinga í GR sem spila Korpuna - Sjóinn svonefnda; fyrstu braut - þeir geta þeir skotist í næstu verslun handan við ána ef einhver seinagangur verður í hollinu við að pútta á flötinni; svo nálægt er hún verslunarkjarnanum.

Þetta er 90 þús. fermetra svæði sem liggur niður að Korpuá og er á stærð við Skeifuna. (Drög að Korputúni. Teikning/ONNO)

Fyrirtækin Jysk og Bónus voru fyrst til að tryggja sér húsnæði í Korputúni en landið tilheyrir Mosfellsbæ. Frá vinstri: Björn
Ingi Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri JYSK á Íslandi, Þórarinn Ólafsson, framkvæmdastóri Lagerinn Iceland, Guðni
Aðalsteinsson, forstjóri Reita, Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Birgir Þór Birgisson, framkvæmdastjóri þróunar
hjá Reitum og Björgvin Víkingsson, framkvæmdastjóri Bónus.