Verður slegið hitamet í höfuðborginni í dag?
9. apríl 2025
HITAMET Í APRÍL Í DAG?
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að dagurinn í dag geti orðið dagur tíðinda í veðurmælingum í höfuðborginni og að gamalt hitamet í apríl falli haldist hitinn yfir 10°C út daginn.
Einar heldur úti vefnum Blika.is. Hann fer yfir málið í færslu á FB og er hún svohljóðandi:
HLÝTT Í GÆR - HLÝRRA Í DAG?
„Leit á mælitölur úr Reykjavík. Í gær 8. apríl reyndist meðalhiti dagsins vera 9,2°C. Dægurhitinn hefur sárasjaldan farið yfir 10 stig í Reykajvík og aldrei (frá 1901) fyrir sumardaginn fyrsta.
Sérlega milt var í morgun suðvestan- og vestanlands. Í Reykjavík stendur meðaltal mælinga það sem af er degi í 10,2°C. Ef hann helst á þessu róli út daginn teldist það talsverð tíðindi, því dægurhitinn í Reykjavík hefur aldrei náð 10 stigum svo snemma í apríl (og þar með á árinu).
3. apríl 1928
má finna töluna 9,8°C. Þá voru mælingar í Rvk. gerðar á Skólavörðustíg 3.
Spáð er vætu í Reykjavík seinnipartinn í dag og við það ætti hitinn að lækka og því tel ég fremur ólíklegt þrátt fyrir allt að 10 stiga þröskuldinum verði náð að þessu sinni.
Fyrir norðan og austan er líka efniviður í 20 stiga hámarkshita þar sem hann verður mestur. Líka það væru talsverð tíðindi ef út í það væri farið, þó svo að slíkur augnablikshiti hafi mælst stöku sinnum áður, en einkum þá austanlands í snarpri SV eða V-átt,“ skifar Einar Sveinbjörnsson veðufræðingur.