Hver hnippti í hvern? Borgin bakkar í Breiðholti en stífelsi í Grafarvogi

9. apríl 2025

HVER HNIPPTI Í HVERN?  Það vekur athygli að Reykjavíkurborg bakkar - sem betur fer - með áform um að byggja 100 íbúðir við tjörnina í Seljahverfi, skv. frétt Morgunblaðsinsí morgun. Grafarvogsbúum mætir hins vegar ekkert nema stífelsi og þvermóðska af versta tagi hjá meirihlutanum.


En hver hnippti eiginlega í hvern? spyr fólk. Hvers vegna að bakka með þetta svæði frekar en önnur verðmæt svæði, t.d. alla litlu blettina í hinum grónu hverfum Grafarvogs; grónum svæðum þar sem þéttingu hefur verið mótmælt af miklum móði?


MÓTMÆLI 111 ÍBÚA VIÐ STARENGI

Síðast í gær voru mótmæli 111 íbúa við Starengi lögð fram á borgarstjórnarfundinum. Mótmælin snúa að litla, gróna svæðinu fyrir neðan Bláu sjoppuna og nær að hringtorginu - sem og gímaldinu sem verður á Thors-vellinum við Korpu. Með fylgdi bréf sem var mjög vel unnið og einstaklega málefnalegt. 


Svo er það auðvitað hneisa að strá salti í sárin með því að úthluta lóðum á fundi borgarráðs í síðustu viku þegar breytt aðalskipulag er enn í ferli, liggur ekki fyrir og hefur þar af leiðandi ekki verið samþykkt. Svo er embættismönnum beitt á íbúana. Á hinum umtalaða íbúafundi 20. mars voru svör embættismanna á einn veg; gerið bara athugasemdir!


Lokafresturinn fyrir athugasemdir í þessu leikriti rennur út 5. maí nk. 


Á borgastjórnarfundinum í gær valtaði meirihlutinn svo yfir vilja Grafarvogsbúa þegar vilyrði fyrir úthlutun lóða borgarráðs í síðustu viku voru staðfest og samþykkt.


TIL HVERS ÞESSA GRÆÐGI BORGARINNAR?

Til hvers er borgin að þessu brölti? Til hvers þessa græðgi? Hún breytir skipulagi eftir á sem fólk hefur treyst á og byggt og keypt sínar eignir í góðri trú skv. því skipulagi sem hefur verið í gildi.


Hún hunsar gildi verðmætra útivistarsvæði - og loks skellir borgin skollaeyrum við því að innviðirnir; skólarnir, leikskólarnir og vegakerfið, er löngu sprungið og þolir ekki meira álag.


Til hvers að róta öllu upp og grafa þessar skotgrafir gegn íbúum Grafarvogs?


Til hvers? Algerlega óskiljanlegt. - JGH