Brosmildi bóksalinn er funheitur stuðningsmaður Úlfanna í enska boltanum

9. apríl 2025

PÉTUR Í BÓKABÚÐINNI. Það kannast eflaust ekki margir Grafarvogsbúar við nafnið Pétur Viðarson en það þekkja allir hinn brosmilda bóksala í Bókabúðinni við Torgið í Grafarvogi; Pétur Viðarson, sem staðið hefur vaktina og þjónustað Grafarvogsbúa af mikilli eljusemi frá árinu 1994 – eða í rúm þrjátíu ár; sagt og staðið!


Þegar inn í bókabúðina er komið blasa við léttar og fínar ferðatöskur á tilboði hjá kappanum. „Það hefur verið mjög góða sala á þeim undanfarnar vikur. Þær eru léttar og liprar þessar og fyrir vikið mjög vinsælar. Ég verð með þær á tilboði fram að páskum,“ segir Pétur um leið og hann lyftir einni upp til að sýna þennan góða ferðafélaga.


Sem frumbýlingur í Grafarvogi frá árinu 1987 hef ég oftar en ekki rúllað til hans eftir ritföngum, kortum eða gjafvörum. Eitt bregst aldrei þegar inn er komið – við byrjum á að ræða enska boltann. Það sem meira er; hann er harður stuðningsmaður Úlfanna; Wolverhampton Wonderes – ég Púlari.

Pétur hefur selt Grafarvogsbúum bækur, ritföng, leikföng, kort og auðvitað ferðatöskur í 31 ár! Sumir byrja ferðalagið í bókabúðinni.

ALLT Í EINU HÉLT ÉG MEÐ ÚLFUNUM

Þeir eru ekki margir sem halda með Úlfunum hér á landi. „Ég veit ekkert hvernig þetta byrjaði. Maður horfði á enska boltann hjá Bjarna Fel. og það var eitthvað sem gerðist; ég var allt í einu farinn að halda stíft með Úlfunum. Þeir hafa verið mitt lið síðan og ég stutt þá í gegnum súrt og sætt. Það hefur verið svolítið á brattann að sækja í vetur og við erum neðarlega í neðri hluta efstu deilarinnar en ég tel að við séum hólpnir.“


Pétur segir að Úlfarnir hafi verið gullaldarliðið í enska boltanum á árunum 1950 til 1960 og þá verið með eitt besta knattspyrnulið í heimi. „Stórstjarnan þá var Billy Wright sem spilaði um 105 landsleiki fyrir Englendinga og þar af fyrstu 70 landsleikina án þess að missa úr leik. Hann var aðlaður; varð sir Billy Wright.“


KEYPTI LEIKFANGABÚÐ MEÐ NÁMI

Pétur er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Þegar hann var 21 árs og nýbyrjaður í náminu var hann staddur á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi og lét slag standa; athafnaþráin kitlaði; hann keypti leikfangabúðina á Eiðistorgi og bætti síðan bókabúðinni í Grafarvoginum við nokkrum árum síðar. Rak þessar tvær verslanir samhliða til ársins 2016 þegar hann seldi verslunina og rýmið á Eiðistorgi – og einbeitti sér að bókabúðinni í Grafarvogi.


FÆDDUR Á EGILSSTÖÐUM - ÓLST UPP Í KÓPAVOGI

Hann á ekki langt að sækja athafnamennskuna. Afi hans var Pétur Jónsson, bóndi á hinu þekkta Egilsstaðabúi við Egilsstaði. „Ég er fæddur á Egilsstöðum en flutti í Kópavoginn þegar ég var 4 ára – bjó fyrst við Lundabrekku og síðan við Hrauntunguna.“

Pétur keypti leikfangaverslun á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi þegar hann var 21 árs og nýbyrjaður í viðskiptafræði í HÍ árið 1989. Hann bætti svo versluninni í Grafarvogi við árið 1994. Núna er hann eingöngu með verslunina í Grafarvoginum.

ÆFÐI MEÐ YNGRI FLOKKUM Í ÍK

Hann æfði fótbolta í yngri flokkunum með ÍK sem síðar sameinaðist HK. Spilaði sem miðherji þótt hann sé það hávaxinn að frekar mætti ímynda sér að hann væri gamall körfuboltamaður. „Sem Kópavogsbúi er maður líka Bliki. Það er nú bara þannig.“


Hann á nokkra leiki með meistaraflokki. En það var ekki í Kópavoginum. Hann vann eitt sumar í Neskaupstað og byrjaði að æfa með Þrótti þar í bæ. Datt inn í lið – og þá sem hinn hávaxni hafsent; miðvörður.


ÉG KRISTNAÐI KONUNA

Eiginkona Péturs er Hrefna G. Thorsteinson og er alltaf annað slagið í búðinni. Litla góða bókabúðin er litla góða einkaframtakið; fjölskyldufyrirtæki. „Jú, ég náði að kristna hana, hún hafði engan áhuga á fótbolta en er núna á kafi sem stuðningsmaður Úlfanna. Hún er meira að segja farin að setja út á leikkerfin,“ segir Pétur og brosir í kampinn. - JGH