Um 50 þúsund heimili með Símann Premium - fréttastofa er ekki í deiglunni
María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans, segir að Síminn hagnist á sjónvarpsrekstri sínum og núna séu um 50 þúsund heimili í landinu með Símann Premium og ekki standi til að fara inn á hinn hefðbundna fjölmiðlamarkað og setja upp fréttastofu. Núna er sjónvarp Símans stærsta efnisveita sjónvarpsefnis á landinu..
María Björk er í nýjasta hlaðvarpsþætti okkar Sigurðar Más Jónssonar, HLUTHAFASPJALLINU, á Brotkast.is en rekstur Símans gengur vel og hefur gengi bréfa í félaginu hækkað um 37% síðustu tólf mánuðina. María Björk var ráðinn forstjóri Símans í júní á síðasta ári en hún var áður fjármálastjóri Eimskips.
Sjónvarpsrekstur Símans gengur vel og yfirbyggingin er mjög lítil, að sögn Maríu Bjarkar Einarsdóttur, forstjóra Símans, sem segir ennfremur að ekki standi til að fara inn á hinn hefðbundna fjölmiðlamarkað með fréttastofu þegar hún er innt eftir því.
„Það hefur ekki komið til tals,“ segir hún og leggur áherslu á að sjónvarpsrekstur Símans hafi verið byggður upp með mjög lítilli yfirbyggingu og kappkostað hafi verið að fjárfesta frekar í góðu efni til að sýna áskrifendum en að binda fé í tólum, tækjum og stúdíóum fremur en að framleiða sjálft sjónvarpsefnið.
„Við látum þá sem eru bestir í að framleiða sjónvarpsefni um þá hlið mála, það hefur gefist okkur vel.“
Síminn hættir með Enska boltann í haust og segir María að þótt um sé að ræða vinsælt og mjög gott sjónvarpsefni þá sé það engu að síður dýrt efni og skaðleg áhrif þessara breytinga á reksturinn verði ekki mikill, að hennar mati.
Hér fylgir klippan þar sem hún er spurð út í það hvort Síminn ætli að færa út kvíarnar í hefðbundnum fjölmiðlum.