Fjöldi Grafarvogsbúa fagnaði sumardeginum fyrsta hjá skátunum við Rimaskóla

24. apríl 2025

SUMARDEGINUM FYRSTA FAGNAÐ. Það var svo sannarlega líf og fjör þegar fjöldi Grafarvogsbúa fagnaði sumardeginum fyrsta á stórglæsilegri hátíð skátanna við Rimaskóla eftir hádegi í dag. Það var skátafélag okkar Grafarvogsbúa og Grafhyltinga, Vogabúar, sem sá um hátíðina. Vel gert hjá þeim.


Þegar Grafarvogur.net leit við var stúlknahljómsveitin Dóra & Döðlurnar á stíga á stokk og taka lagið. Þær sögðu að fyrsta lagið yrði um ástina og hversu erfið hún gæti verið en enginn gæti samt án verið. Frumsamið lag sem hægt er finna á Spotify.

Löng biðröð var í hoppukastalann. 

Skátarnir sögðu í kynningu á hátíðinni að þeir hefðu óskað eftir góðu veðri og þeim varð svo sannarlega að ósk sinni því sól skein í heiði og 15 stiga hiti, hvað verður það betra, svo notað sé orðalag skátanna.


Það er ekki oft sem svona hitatölur sjást á þessum degi þegar sumarkomunni er fagnað.


Löng biðröð var í hoppukastalann á svæðinu og hún var enn lengri í pylsurnar - og auðvitað fylgdi kók og prins póló með. Rammíslenskt fæði á útiskemmtunum, að sjálfsögðu!


Hoppukastali, rennibraut, leiktæki, varðeldur, pylsur, sykurpúðar, kók og prins, sirkusatriði frá Sirkus Íslands og hljómsveitin Dóra og Döðlurnar.


Stöngin inn hjá skátunum!

Róbert Örn Albertsson, skátahöfðingi Vogabúa, hafði í nógu að snúast í pylsunum enda löng biðröð í þennan þjóðarrétt Íslendinga á sumardeginum fyrsta. Við hlið hans stendur Ester Kristjánsdóttir.

Varðeldur og sykurpúðar. Tvenna sem getur ekki klikkað.

Erlendur Kristjánsson stóð vaktina við hoppukastalann - og hafði í nógu að snúast.

Stúlknahljómsveitin Dóra & Döðlurnar. Frá vinstri: Helga Sigríður Kolbeinsdóttir, hljómborð, Hekla Sif Sævaldsdóttir, trommur, Bára Katrín Jóhannsdóttir, gítar og Guðrún Ýr Guðmundsdóttir, gítar. En hvar er Dóra? Hún er hætt í hljómsveitinni, var svarið.

Hér er verið að búa til „candy floss“ - sælgætisþráð. Vélin snýr sykrinum í ljúffengt sælgæti; stóra hnoðra.