Frýs saman vetur og sumar? Vonandi!
Ýmis þjóðtrú fylgir sumarkomunni og ein er sú að ef frýs saman vetur og sumar þá verði sumarið gott. Fyrrum létu búkonur út skel með vatni aðfaranótt sumardagsins fyrsta og ef frosið var í skelinni að morgni þótti það vita á gott sumar.
Samkvæmt veðurspánni sýnist það á mörkunum að það frjósi saman. Hiti um miðnætti í kvöld og næstu nótt verður í kringum frostmarkið. Hins vegar mun örugglega falla á líkt og undanfarna daga í borginni.
Nú er bara að setja djúpan disk með vatni út í kvöld og sjá hvort frosið verði í honum í fyrramálið.
Annars var þetta sannast sagna frekar mildur vetur og frekar snjóléttur. Helst að það kyngdi niður í byrjun þorrans en snjóþyngslin stóðu stutt yfir. - JGH