Tollar Trumps og hrikalegur fjárlagahalli vestra
Á meðfylgjandi mynd er Scott Bessent fjármálaráðherra Bandaríkjanna fyrir utan Hvíta húsið fyrir nokkrum dögum að greina frá hrikalegum og krónískum fjárlagahalla Bandaríkjamanna.
Í nýjasta HLUTHAFASPJALLINU, hlaðvarpi okkar Sigurðar Más Jónssonar á Brotkast.is, förum við yfir þá óyfirstíganlegu (að því er virðist) erfiðu fjárhagslegu glímu sem Bandaríkjamenn eiga í og við spyrjum okkur meðal annars hvert sé markmið margumræddra gagnkvæmra tolla Trumps og hvort hann sé sjálfur búinn að gera það upp við sig hvert markmiðið sé.
Eftir fall á hlutabréfmörkuðum „frestaði“ Trump tollum um 3 mánuði á 75 ríki með því að setja 10% tolla á línuna nema á Kína en þar setur hann á um 140% tolla. Síðan hafa verið veittar undaþágur.
En stóra spurningin er auðvitað hvort tollunum sé ætlað að afla tekna eða er markmiðið að ná fram samningum um tolla við önnur ríki - núlla út tolla í alþjóðlegum viðskiptum og auka á frelsið - eða býr það að baki að draga að fleiri fyrirtæki til Bandaríkjanna og styrkja þannig bandaríska framleiðslu.

FJÁRLAGAHALLINN í Bandaríkjunum nam hvorki meira né minna 1,3 trilljónum dollara frá október á síðasta ári til mars á þessu ári. Þetta er annar mesti 6 mánaða-halli í yfir fjörutíu ár vestra en sá mesti var árið 2021 í covid. Ef fram fer sem horfir fer fjárlagahallinn vel yfir 2 trilljónir dollara. Er nema von að Elon Musk og kó reyni að finna pósta til að skera niður.
VIÐSKIPTAHALLINN í Bandaríkjunum – halli á viðskiptunum við útlönd – fór í fyrsta sinn á síðasta ári (2024) yfir 1 trilljón dollara og hefur aldrei verið meiri. Viðskiptahallinn sýnist krónískur og nánast óviðráðanlegur - og ætti auðvitað að fá meiri vigt í tollaumræðunni.
Fram hefur komið að erlend ríki leggja 370 milljarða dollara tolla á innfluttar bandarískar vörur á meðan Bandaríkjamenn leggja um 50 milljarða dollara tolla á innfluttar vörur frá alþjóðasamfélaginu.
SKULDIR Bandaríkjamanna eru komnar upp úr hæstu rjáfrum og náð því skuldaþaki sem Bandaríkjamenn miða sjálfir við, 36 trilljónir dollara. Þannig að svigrúmið til frekari skuldasöfnunar er ekkert.
Að sjálfsögðu ætti dollarinn að vera löngu fallinn í svona svakalegu fjárhagslegu árferði enda hefur hann gefið eftir að undanförnu. Dollarinn var 134 krónur 1. apríl en er núna kominn niður í 127 krónur.
Þetta verður erfið glíma. - JGH