Til hamingju Helgi Árnason - Hringfararnir stofna sérstakan styrktarsjóð í hans nafni
Til hamingju HELGI ÁRNASON. Styrktarsjóður Hringfarans úthlutaði á miðvikudaginn fimm milljónum króna til barna- og unglingastarfs Skáksambands Íslands með því að stofna Skáksjóð Helga Árnasonar
Styrktarsjóðurinn Hringfari er á forræði hjónanna Ásdísar Rósu Baldursdóttur og Kristjáns Gíslasonar. Hjónin hafa ferðast um allan heim á mótórhjólum og meðal annars gert heimildarmyndir og bækur um ferðalögin. Allur ágóði af sölu á því efni rennur í styrktarsjóðinn.
Við athöfn á heimili þeirra Ásdísar og Kristjáns miðvikudaginn 9. apríl kom fram að þau vildu tileinka styrkinn Helga Árnasyni, fyrrverandi skólastjóra og skákfrömuði, sem hefði á síðustu 30 árum unnið ómetanlegt starf við uppbyggingu skáklistarinnar á Íslandi.
Skáksjóður Helga Árnasonar væri til að heiðra Helga fyrir hans framlag og óeigingjarnt starf í þágu barna og unglinga. Helgi verður formaður 5 manna stjórnar Styrktarsjóðsins.
Það voru fjölmargir gestir sem fögnuðu með Helga og hjónunum Ásdísi Rósu og Kristjáni. Meðal gesta voru borgarstjórahjónin Heiða Björg Hilmisdóttir og Hrannar Björn Arnarson, fulltrúar Skáksambands Íslands, vinir og bekkjarfélagar Helga og Ásdísar Rósu frá Kennaraháskóla Íslands.
Styrktarsjóður Hringfarans hefur úthlutað alls 37 milljónum til góðgerðarmála.
Ljósmyndir: Baldur Kristjánsson

Það voru fjölmargir gestir sem fögnuðu með Helga og hjónunum Ásdísi Rósu Baldursdóttur og Kristjáni Gíslasyni en Helgi og Ásdís Rósa voru skólasystkini í Kennaraháskólanum á sínum tíma.

Meðal gesta voru borgarstjórahjónin Heiða Björg Hilmisdóttir og Hrannar Björn Arnarson. Við hlið Helga á hægri hönd er eiginkona hans Aðalbjörg Jónasdóttir líffræðingur.

Þau Ásdís Rósa og Kristján vildu tileinka styrkinn Helga Árnasyni, fyrrverandi skólastjóra og skákfrömuði sem hefði á síðustu 30 árum unnið ómetanlegt starf við uppbyggingu skáklistarinnar á Íslandi.