Kvöldblús á kæjanum

12. apríl 2025

KVÖLDBLÚS Á KÆJANUM. Þeir eru margir góðir veitingastaðirnir í hjarta Reykjavíkurhafnar og gaman að rölta aðeins um á kæjanum eftir góðan kvöldverð.


Egill Skallagrímsson orti um að standa í stafni og stýra dýrum knerri. Þau er mörg glæsifleyin við höfnina þó fágætar séu hinar fögru árar. 


Stafalogn í gærkvöldi þar sem ljósgeislar og ljósrákir læddust um sjávarborðið og snekkjurnar spegluðu sig í sævarblámanum. 


Vorkvöld í Reykjavík - kvöldblús á kæjanum! - JGH

Þarna má sjá farþega komna um borð áður en lagt er í 'ann og haldið til hafs í skoðunarferð að kvöldi til. Heyrði að Andrea þyrfti ekki að fara langt út á flóann til að farþegar hennar gætu horft á norðurljósin í allri sinni dýrð á hafi úti við þessar kringumstæður.

Þeir eru þónokkrir veitingastaðirnir á þessum litla bletti við kæjann - og hver öðrum betri.

Þetta fagra fley á þurru landi baðaði sig í ljósgeislum kvöldsins - Júpíter frá Vestmannaeyjum.