Skoðun: Grímunum kastað og valdníðslan og yfirgangurinn birtist grímulaus

4. apríl 2025

GRÍMULAUS VALDNÍÐSLA! Flestir íbúa í Grafarvogi eru agndofa yfir vinnubrögðum meirihlutans í borgarráði sl. fimmtudag um að hunsa algerlega þá kröftugu bylgju mótmæla við þéttingu byggðar í grónum hverfum Grafarvogs.


Það er auðvitað ekkert annað en grímulaus einstefna að úthluta lóðum á reitum í miðju ferli við að breyta aðalskipulagi og íbúar hafa enn rétt til að gera athugasemdir við. Fresturinn til að skila inn athugasemdum var upphaflega 10. apríl en hann hefur verið framlengdur til 5. maí. Hvers konar vinnubrögð eru þetta hjá borgaryfirvöldum sem eru í vinnu fyrir íbúanna?


Á hinum fjölmenna íbúafundi 20. mars sl. í Borgum í Spönginni hvöttu embættismenn fundarmenn til að sýna dugnað við að skila inn athugasemdum við breytt aðalskipulag. Við erum hér - stóð stórum stöfum á glærusýningunni og minntu þau orð óþægilega mikið á hina umdeildu setningu í auglýsingu Jóns Gnarrs hér um árið: Við erum hér - hvar ert þú?   


EIN STÓR LEIKSÝNING

Í þessu leikhúsi meirihlutans var það látið líta svo út á fundinum að íbúar hefðu eitthvað um málið að segja. Fyrirkomulag fundarins um að fundarmenn mættu ekki tjá sig og spyrja fyrir opnum tjöldum vakti hins vegar undrun og vissi ekki á gott og fór sannast sagna illa í fundarmenn sem voru mættir til að spyrja, fá skýringar fyrir fullum sal og mótmæla.


Raunar kviknaði smá von um að múrar væru að falla þegar Alexandra Briem borgarfulltrúi sté á stokk og tjáði sig á fundinum um að andstaðan kæmi sér á óvart en tekið yrði tillit til sjónarmiða íbúanna. Það reyndist vera leikur einn fyrir hana að segja þetta og fólk trúði henni!


Og það reyndist sömuleiðis leikur einn fyrir meirihluta borgarráðs sl. fimmtudag að valta yfir vilja mikils meirihluta Grafarvogsbúa í þessu máli og byrja að úthluta lóðum í skipulagsferli sem ekki er enn lokið - og fólk er enn beðið um að gera athugasemdir við. Sumir telja raunar að verið sé að refsa íbúum Grafarvogs fyrir hin kröftugu mótmæli.


LEIKHÚS - OG LENGST AF Á BAK VIÐ TJÖLDIN

En um leikhús og tjöld. Fram til þessa hafa verið fluttar fréttir um leyndarhyggju og laumuspil af hálfu meirihlutans varðandi þéttingu byggðarinnar í Grafarvogi og þess gætt að sem minnst fengi að fréttast.


Þannig hafa sjálfstæðismenn reynt ítrekað að leggja fram formlegar bókanir í fundargerðir gegn þéttingastefnu meirihlutans en ekki haft erindi sem erfiði. Þess hefur verið gætt að þeirra sögn að fella tillögur þeirra um að koma mótmælunum á dagskrá og bóka þau.


TJÖLDIN DREGIN FRÁ

Svo rann fimmtudagurinn í síðustu viku upp og hinum nýju stýrum borgarinnar var mikið í mun að sýna vald sitt og úthluta lóðum í miðju ferli. Teningnum var kastað -  grímunum var kastað og tjöldin dregin frá. Valdníðslan og yfirgangurinn blasti þá grímulaus við: Grafarvogsbúar hættið að kvarta og mótmæla, við förum okkar fram hvað sem þið segið - er upplifun Grafarvogsbúa.


„Samtalið og samvinnan“ sem nýr borgarstjóri hafði gumað af nokkrum dögum áður í ræðustól og á fjölum þessa leikhúss varð skyndilega hjóm eitt.


Í þessu eldheita þéttingarmáli virðast borgarfulltrúar meirihlutans ekki í vinnu fyrir Grafarvogsbúa heldur sýnist frekar einbeittur vilji að vinna gegn þeim og óskum þeirra. Áður á bak við tjöldin en núna grímulaust fyrir opnum tjöldum. - JGH