Þær fá hörð mótmæli 111 íbúa við Starengi inn á fund borgarstjórnar í hádeginu

8. apríl 2025
ÍBÚAR VIÐ STARENGI MEÐ HÖRÐ MÓTMÆLI. Nýju borgarstýrurnar og meirihlutinn í borgarstjórn hefja borgarstjórnarfund í hádeginu í dag, þriðjdaginn 8. apríl í Ráðhúsinu, með hörð mótmæli frá 111 íbúum við Starengi um að byggja á litla blettinum fyrir neðan Bláu sjoppuna - sem og við áformaðar byggingaframkvæmdir inni á golfvelli GR við Korpu; Thorsvellinum.

Íbúarnir sendu mótmælin í tölvupósti til borgarstjórnar í gærkvöldi en mikill asi er á nýja meirihlutanum við að keyra þéttingu byggðar í Grafarvogi í gegn þvert á vilja mikils meirihluta íbúa í hverfinu. Í síðustu viku voru lóðir úthlutaðar þótt ekki sé búið að samþykkja breytt aðalskipulag - og er það ekki bara smekklaust heldur algjör hneisa. 

Fram kemur í mótmælaskjali íbúanna við Starengi til borgarstjórnarinnar að skýr andstaða íbúanna sé við fyrirhugaðar byggingar á þessum litla bletti við Starengi en þar stendur til að byggja 18 íbúðir á nokkrum hæðum með of fáum bílastæðum og ófullnægjandi aðlögun að hverfinu.

Alls voru að minnsta kosti 96,1% íbúa á móti framkvæmdunum en ekki náðist í alla þegar gengið var í hús til að safna undirskriftum. 

Sjá erindið með mótmælum íbúanna hér.

Á meðal þess sem fram kemur í bréfi íbúanna til borgarstjórnar er að tekið verði tillit til vilja íbúanna. „Borgarstjórn er lýðræðislega kjörin og ber samkvæmt sveitarstjórnarlögum að stjórna í umboði borgarbúa. Þótt lagaleg skylda sé ekki til staðar til að fara eftir ráðgefandi vilja íbúa,ber borgarstjórn:
- Siðferðilega og pólitíska ábyrgð á því að hlusta á vilja þeirra sem málið varðar.
- Að tryggja að ákvarðanir séu teknar með almenningi, ekki gegn honum.

Þær sem stóðu að þessari undirskriftasöfnun og skrifa undir erindið eru þær Þóra Þórsdóttir, Starengi 106, Kristín S. Konráðsdóttir, Starengi 84, Björg Ólafsdóttir, Starengi 18 og Ásdís Kristinsdóttir, Starengi 8.