Logi er labrador
Það var gaman að rekast á hana Vilborgu Halldórsdóttur á göngu með hundinn sinn Loga síðdegis í dag, annan í páskum, á hinum fallega stíg fyrir ofan sjóinn í Hamrahverfinu; gegnt Bryggjuhverfinu.
Fyrir þá sem vilja vita meira um ættfræði og ræktun hunda þá er Logi svonefndur lindár labrador.
Sterkur og fallegur hundur - þriggja ára Grafarvogsbúi sem býr í Hamrahverfinu.
En hverjir eru kostirnir við labrador hunda? „Kostirnir eru einstakt geðslag,“ segir Vilborg. „Labradorinn er góður og vænn fjölskylduhundur, hlýðinn og meðfærilegur. Þú finnur ekki rólegra dýr.“
- Ekki svo rólegur að hann sé með nein letiköst?
„Nei, hann er alltaf til í að hreyfa sig. Við förum með hann út að ganga tvisvar á dag. Leggjum áherslu á að hann fái að minnsta kosti alltaf eina langa og góða gönguferð á hverjum degi; stundum förum við hringinn í kringum voginn eða út á Geirsnef sem er sleppisvæði. Það hjálpar líka upp á hreyfiþörfina hjá honum að við erum með stóran garð þar sem hann getur valsað um.“
Logi er sterkur, 46 kíló og með mikinn togkraft. „Hann getur alveg tekið í karlinn,“ segir Vilborg brosandi.
Skemmtilegt rabb á röltinu. - JGH

Vilborg með hundinn Loga sem er af tegundinni labrador. „Kostirnir eru einstaklega gott geðslag,“ segir Vilborg.

Logi var bara svolítið upp með sér að vera myndaður. Búinn að vappa í kringum eigendur sína bróðurpart dagsins þar sem þeir voru í garðvinnu.