Biskup Íslands, Guðrún Karls Helgudóttir, minnist Frans páfa
Margir hafa minnst Frans páfa í dag en hann lést í morgun kl. 7:35, á annan í páskum, degi eftir að hann kom fram á Péturstorginu í Róm með páskablessun sína. Hann var 88 ára að aldri.
Biskup Íslands og fyrrverandi sóknarprestur í Grafarvogi, Guðrún Karls Helgudóttir, minnist hans meðal annars á FB-síðu biskups með þessum orðum:
„Með sorg og þakklæti í hjarta minnist ég Frans páfa á öðrum degi páska og syrgi með okkar kaþólsku systkinum á Íslandi og um heim allan. Frans páfi var einlægur og sannur leiðtogi sem sá heiminn með augum okkar minnstu systkina. Hann var leiðtogi einingar, samtals og þjónustu.
Hann lagði mikið af mörkum þegar kom að samtali Lúthersku og Kaþólsku kirkjunnar sem kristallaðist í fundum kirkjuleiðtoganna í Svíþjóð á 500 ára afmæli siðbótarinnar. Þetta leiddi af sér samstarf um hjálparstarf og þróunaraðstoð.
Hann lyfti, með sýnilegum hætti, upp þeim sem minnst mega sín í samfélagi fólks, lét sig varða sköpunina alla og hamfarahlýnun með áþreifanlegum hætti.
Megi minning þessa einstaka páfa lifa og arfleifð hans hafa áhrif um ókomna tíð.
Bæn: „ Guð, í dag minnumst við Frans páfa með þakklæti. Við þökkum umhyggju hans fyrir fólki, sköpuninni og öllu lífi. Við biðjum fyrir Kaþólskum systkinum okkar um allan heim sem nú syrgja leiðtoga sinn.Lát þitt eilífa ljós lýsa honum. Amen.“

Jorge Mario Bergoglio, Frans páfi, fæddist 17. desember 1936 í Buenos Aires. Hann þótti umbóttasinnaður páfi og fyrsti páfinn frá Suður-Ameríku.
„Kæru bræður og systur, með djúpri sorg verð ég að tilkynna andlát okkar heilaga föður Frans,“ sagði Kevin Farrell kardínáli í Páfagarði í tilkynningu í morgun.
„Klukkan 7:35 í morgun sneri biskupinn í Róm, Frans, aftur til húss föðurins. Allt líf hans var helgað þjónustu Drottins og kirkju hans. Hann kenndi okkur að lifa eftir gildum fagnaðarerindisins af trúmennsku, hugrekki og alhliða kærleika, sérstaklega í þágu hinna fátækustu og mest jaðarsettu.“
ÍTALSKIR FORELDRAR SEM FLÚÐU MUSSOLINI
Frans páfi var skírður Jorge Mario Bergoglio. Hann fæddist 17. desember 1936 í Buenos Aires, höfuðborg Argentínu, elstur af fimm börnum Mario Bergoglio endurskoðanda og Reginu Sivori. Foreldrar hans voru ítalskir innflytjendur sem flúðu fasistastjórn Benito Mussolinis.
Bergoglio var kjörinn páfi 13. mars 2013 eftir að Benedikt páfi sextándi hafði tilkynnt um afsögn sína 11. febrúar það ár vegna veikinda en hann var fyrsti páfinn í sex hundruð ár til að segja af sér í embætti.
Benedikt páfi var kjörinn páfi árið 2005, sautján dögum eftir andlát Jóhannesar Páls II páfa sem var kjörinn páfi árið 1978 þá aðeins 58 ára að aldri. - JGH