Starfið hefur kennt mér að vera þakklát

13. apríl 2025

VIÐTAL: SVAVA JÓNSDÓTTIR

Arna Ýrr Sigurðardóttir, sóknarprestur í Grafarvogskirkju, segir að prestar upplifi bæði gleði og sorg í lífi sóknarbarna sinna og að sú reynsla hafi kennt sér að vera þakklát fyrir sig, sína og lífið. 


„Það er þroskandi að ganga með fólki bæði í gleði og sorg og maður kemst ekkert ósnortinn eða óbreyttur frá því. Svo kem ég oft heim úr vinnunni og hugsa að ég skuli muna að þakka fyrir hvern einasta dag sem ég fæ af því að maður getur ekki treyst á það. Það veit enginn hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Þannig að starfið hefur kennt mér að vera þakklát fyrir mig, mína og mitt líf.“


STERK SAFNAÐARVITUND Í GRAFARVOGI

Arna Ýrr varð prestur í Grafarvogssókn árið 2014 en hún var ekki alveg ókunnug í sókninni því þær Guðrún Karls Helgudóttir höfðu stjórnað saman skilnaðarhópum í tvo vetur áður. Hún var svo skipuð sóknarprestur sl. vor eftir að Guðrún var kjörin biskup Íslands.


„Það er sterk safnaðarvitund í Grafarvogi og staða Grafarvogskirkju í hverfinu er mjög sterk. Byggður hefur verið upp öflugur söfnuður með þróttmiklu safnaðarstarfi í gegnum tíðina - og svo er það gleðilegt að áhugi ungs fólks á kristinni trú er að aukast og við finnum fyrir því í Grafarvogi eins og annars staðar,“ segir Arna Ýrr.

„Það er þroskandi að ganga með fólki bæði í gleði og sorg og maður kemst ekkert ósnortinn eða óbreyttur frá því.“ 

FÓLK ÞYRSTIR Í ANDLEG MÁLEFNI

 „Ég held að það tengist andlegum þorsta í samfélaginu; fólk er búið að gera sér grein fyrir að það þarf að sinna sínum andlegu og trúarlegu þörfum og við erum farin að skynja það betur að það skiptir máli fyrir lífsgæði okkar allra.“

 

Hún segir að það hafi alltaf verið góð þátttaka í helgihaldinu í kirkjunni og nefnir sérstaklega fermingarbörn hvers ár sem séu dugleg að mæta og að það sé að aukast að foreldrar þeirra komi með þeim.

 

BÓKAKLÚBBUR Í KIRKJUNNI

Ýmislegt er í boði í kirkjunni og er þar til dæmis bókaklúbbur og er hist einu sinni í mánuði. „Það eru lesnar skáldsögur og er það í rauninni hópurinn sem velur næstu bók. Þetta er góður og blandaður hópur fólks sem er áhugafólk um að lesa góðar bækur og eru öll velkomin.

 

GÆÐASTUNDIR Á „ÚLFATÍMA“

Í vetur byrjuðum við líka með gæðastundir fjölskyldunnar einu sinni í mánuði á miðvikudögum, á svokölluðum ,,úlfatíma“, eða frá klukkan fimm til hálfátta, sem enda með því að allir borða saman kvöldmat. Þetta eru mjög vinsælar og vel heppnaðar stundir fyrir fjölskyldufólk. Við höfum verið að endurskoða barnastarfið hjá okkur og bjóða upp á meira í námskeiðaformi; það er svo sem engin nýjung en bara aðeins öðruvísi form.“

„Það er svo gleðilegt að áhugi ungs fólks á kristinni trú er að aukast og við finnum fyrir því í Grafarvogi eins og annars staðar.“ 

AKUREYRINGUR OG STÚDENT FRÁ MA 1988

Sóknarpresturinn fæddist og ólst upp í höfuðstað Norðurlands og bjó þar fyrstu 22 ár ævinnar. Hún gekk í Oddeyrarskóla og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1988.

 

„Ég átti afskaplega ljúfa og góða æsku,“ segir Arna Ýrr sem bað bænir á kvöldin; Faðirvorið og Láttu nú ljósið þitt voru á meðal hinna dæmigerðu kvöldbæna. Hún segir að hún hafi átt mjög trúrækna ömmu sem hafi ásamt móður sinni og afa alið sig upp og kennt sér hina dæmigerðu fallegu og góðu íslensku barnatrú.

 

Hún varð fljótlega lestrarhestur og bókaormur mikill og segist oft hafa farið á hverjum degi á Amtsbókasafnið, byggingu sem henni þyki ákaflega vænt um.


„Ég las náttúrlega Enid Blyton-ævintýrabækurnar og ég var mikið fyrir myndasögur, teiknamyndasögur, eins og Tinna og Lukku-Láka, og ég hef alltaf verið mikið fyrir fantasíur. Skólastjórinn í skólanum mínum, Indriði Úlfsson, skrifaði margar barnabækur sem voru gjarnan í jólapökkunum mínum.“

 

Hún varð síðan virk í KFUK og KFUM og Æskulýðsfélagi Akureyrarkirkju. „Mig langaði að læra meira um kristna trú og Biblíuna og guðfræðin varð því fyrir valinu þegar ég fór í háskólann.“

 

HLAUPIÐ SEX MARAÞON ERLENDIS

Á háskólaárunum dvaldi Arna Ýrr fyrir norðan á sumrin og það var á þeim árum sem hlaupaáhuginn kviknaði. Hún hætti að hlaupa um tíma en tók upp þráðinn þegar hún flutti til Raufarhafnar rúmlega þrítug árið 2000. Hún segir að þar hafi ekki verið mikið um líkamsrækt þannig að hún fór upp á þjóðveg að hlaupa.

 

Hún flutti svo til Reykjavíkur árið 2006 og byrjaði í hlaupahópnum Mosóskokki. „Fyrst var markmiðið Reykjavíkurmaraþonið á haustin en svo tók ég stefnuna á lengri hlaup og hljóp þá líka á veturna. Þetta vatt upp á sig og endaði með hálfmaraþoni og loks maraþoni.“


Núna eru  sex maraþon erlendis að baki hjá henni og stefnan er sett á maraþon í Tókýó á næsta ári og eftir það er það Boston.

 

ÖGRA SJÁLFRI MÉR MEÐ HLAUPUNUM

„Það fylgir þessu ótrúlega góður og skemmtilegur félagsskapur og hef ég eignast góðar vinkonur í gegnum þetta. Svo er það náttúrlega útiveran og hreyfingin. Þetta er líka töluverð áskorun og það hefur verið mjög gefandi að ögra sjálfri mér í þessu. Það er langt frá því að ég sé ofurhlaupari en þetta er ákveðin ögrun. Það er gott að hreinsa hugann á hlaupum og auðvitað mikilvægt að hugsa um heilsuna og hreyfa sig,“ segir Arna Ýrr Sigurðardóttir. 

Sex maraþon að baki erlendis og stefnan sett á maraþon í Tókýó á næsta ári.