Kauphallir rétta úr kútnum eftir dýfur undanfarna daga

8. apríl 2025

Kauphallir hafa rétt örlítið úr kútnum í dag eftir dýfur síðustu daga. Að minnsta kosti virðist mesta taugaveiklunin að baki út af tollum Trumps hvernig svo sem framvindan verður. Blæðingin hefur a.m.k. stöðvast í bili.


Kauphöllin á Íslandi hefur hækkað um 2,33% það sem af er degi. London fer ágætlega af stað og hefur hækkað um 2,39% og er markaðurinn núna á sama stað og 15. apríl í fyrra.


Japan hefur hækkað um rúm 6% og þar tala greinendur um að aukin trú sé á að samningar náist við Bandaríkjamenn um tolla.

London síðustu fimm árin. Fall FTSE 100-vísitölunnar síðustu daga sést hér greinilega á myndinni. Markaðurinn er á sama stað og fyrir einu ári; 15. apríl í fyrra.

Nikkei-vísitalan í Japan er á svipuðum stað og í byrjun árs 2024. Á síðustu fimm árum hefur þessi vísitala hækkað um 70% sem er vel af sér vikið.