Grafarvogsfundurinn og þjóðfundurinn 1851: Vér mótmælum allir! Hreinn yfirgangur

22. apríl 2025

VÉR MÓTMÆLUM ALLIR! Gera má ráð fyrir áframhaldandi hrinu mótmæla hjá Grafarvogsbúum næstu þrettán daganna vegna þéttingar byggðar í hverfinu en frestur til að mótmæla og gera athugasemdir við breytt aðalskipulag var framlengdur frá 10. apríl til mánudagsins 5. maí nk.


Borgin er raunar þegar byrjuð að úthluta lóðunum sem Grafarvogsbúar mótmæla að byggt verði á og túlka flestir íbúa það sem hreinan yfirgang og vanvirðingu enda málið enn í ferli. Engu að síður ætla íbúar ekki að láta deigan síga heldur mótmæla áfram þéttingunni formlega.


HREINN YFIRGANGUR

Þegar horft er til hins umtalaða fundar íbúa Grafarvogs með embættismönnum borgarinnar hinn 20. mars sl. í Borgum í Spönginni þar sem allt fór í háaloft og íbúar mótmæltu fyrirhugaðri þéttingu kröftuglega kemur þjóðfundurinn 1851 óneitanlega upp í hugann þótt sá fundur hafi að vísu snúist um sjálfstæðisbaráttu Íslendinga - en líka fyrirkomulag þess fundar þar sem um hreinan yfirgang var að ræða og menn máttu ekki tjá sig.


Trampe greifi gaf sig ekki en það gerði hins vegar fundarstjórinn á Grafarvogsfundinum eftir mikið japl, jaml og fuður.


Á Grafarvogsfundinum 20. mars var það fyrirkomulag sett upp af hálfu embættismanna borgarinnar að Grafarvogsbúar mættu ekki spyrja um og mótmæla tillögunum fyrir fullum sal heldur var uppleggið að embættismenn yrðu með kynningu og fundarmenn fengju aðeins að spyrja og ræða málin við embættismenn og arkitekta eftir aðalkynninguna og þá fyrir framan fjóra skjái sem höfðu verið settir upp í troðfullum salnum.

Grafarvogsfundurinn 2025 - hinn 20. mars sl. og átti það sameiginlegt með þjóðfundinum 1851 að um hreinan yfirgang var að ræða. Enda mótmæltu fundarmenn einum rómi fyrirkomulagi fundarins og þéttingu byggðar.

VIÐ MÓTMÆLUM ÖLL

Grafarvogsfundurinn leystist upp í hörð mótmæli vegna þessa fyrirkomulags og úr varð að allur salurinn (nema þrír) mótmælti fyrirkomulagi fundarins og þeim tillögum sem þar voru kynntar. „Við erum komin hingað til að mótmæla öllum þessum tillögum, við höfnum þeim öllum,“ var haft á orði.


Vegna kröftugra mótmæla á fundinum og mikils þrýstings fengu nokkrir fundarmenn engu að síður orðið - og var mikill samhljómur hjá þeim með fundarmönnum um að mótmæla og að borgin hyrfi frá áformum sínum.


ÞJÓÐFUNDURINN 1851

Þjóðfundurinn 1851 í Lærða skólanum í Reykjavík hófst 5. júlí en lauk 9. ágúst það ár með snörpum hætti. Til umræðu var lagafrumvarp dönsku stjórnarinnar sem fól í sér að Ísland yrði innlimað í Danmörku, landið hefði sömu lög og reglur og Danmörk, Alþingi yrði amtráð, en Íslendingar fengju sex fulltrúa á danska þinginu. (Fréttin hefur verið uppfærð með dagsetningum þjóðfundarins.)


Trampe greifi, sem var danskur embættismaður og stiftamtmaður á Íslandi frá 1850 til 1860, sá fram á að þjóðkjörnu fulltrúarnir myndu fella stjórnarfrumvarpið og sleit því fundinum strax, áður en til atkvæðagreiðslu kæmi. Mótmælti Jón Sigurðsson þá í nafni konungs og þjóðarinnar því ranglæti sem haft væri í frammi.

Málverk eftir Gunnlaug Blöndal af þjóðfundinum 1851 í Lærða skólanum.

VÉR MÓTMÆLUM ALLIR

Trampe: „Og lýsi ég því yfir, í nafni konungs...“

Jón Sigurðsson greip þá fram í: „Má ég biðja mér hljóðs, til að forsvara aðgerðir nefndarinnar og þingsins?“

Páll Melsteð: „Nei.“

Trampe: „...að fundinum er slitið“.

Jón:  „Þá mótmæli ég þessari aðferð...“

Um leið og Trampe og Páll Melsteð þingforseti viku frá sætum sínum, mælti Trampe: „Ég vona, að þingmenn hafi heyrt, að ég hef slitið fundinum í nafni konungs.“

Jón:  „Og ég mótmæli í nafni konungs og þjóðarinnar þessari aðferð, og ég áskil þinginu rétt til þess að klaga til konungs vors yfir lögleysu þeirri, sem hér er höfð í frammi.“

Þá risu þingmenn upp og mæltu nálega í einu hljóði: „VÉR MÓTMÆLUM ALLIR.“

Þannig lauk þjóðfundinum.


Meðfylgjandi málverk af þjóðfundinum er eftir Gunnlaug Blöndal og var það fullklárað afhent Alþingi árið 1956 og hengt upp í anddyri Alþingis.   - JGH