Stefnum á vel yfir þúsund athugasemdir. Tæknilegar leiðbeiningar koma í dag
„Núna verðum við að standa saman öll sem einn og mótmæla,“ sagði Elísabet Gísladóttir, formaður Íbúasamtaka Grafarvogs, í samtali við Grafarvog.net í morgun.
GRAFARVOGUR.NET mun birta leiðbeiningarnar um leið og þær berast.
„Þessar tæknilegu leiðbeiningar koma seinni partinn í dag; þær eru hálfgert skapalón til að auðvelda öllum að senda inn athugasemdir i gáttina,“ segir Elísabet.
„Við Grafarvogsbúar þurfum að láta finna vel fyrir okkur í þessu máli og markmiðið er að íbúar í Grafarvogi sendi vel yfir eitt þúsund athugasemdir inn í gáttina að þessu sinni. Það tekst ef við brettum núna upp ermarnar og sýnum hug okkar í verki með því að senda inn athugasemdir.“
SKÝR SKILABOÐ Á FUNDI MEÐ BORGARSTJÓRA
Elísabet og þrír aðrir fulltrúar Íbúasamtakanna fengu eftir ítrekaðar tilraunir fund með borgarstjóra skömmu fyrir dymbilvikuna. Borgarstjóri mætti á fundinn ásamt fríðu föruneyti en þar var einnig Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata og formaður skipulagsráðs, ásamt nokkrum starfsmönnum borgarinnar á skipulagssviði.
„Skilaboð Íbúasamtakana til borgarstjóra voru mjög skýr: borginni ber að hætta að fullu við öll áform um þéttingu byggðar í Grafarvogi,“ segir Elísabet.
„Rökin fyrir því eru sú að borgin er rúin trausti í skipulagsmálum og flestir íbúar í Grafarvogi treysta borginni einfaldlega ekki. Íbúar hafa fært sannfærandi rök gegn þéttingunni og þegar sent inn fjölda athugasemda við áformin.
Við náðum hátt í þúsund athugasemdum síðast og núna stöndum við saman öll sem einn og gerum enn betur. Það ættu allir að geta nýtt sér þær tæknilegur leiðbeiningar sem koma síðar í dag,“ segir Elísabet. - JGH