Gleðilega páska!

20. apríl 2025

Grafarvogur.net óskar lesendum sínum gleðilegra páska og áréttar þakklæti sitt fyrir frábærar viðtökur frá því vefurinn fór í loftið.


Á föstudeginum langa minnast kristnir menn krossfestingar Jesú Krists en á páskadegi upprisu hans. Jesús var handtekinn og krossfestur á síðasta föstudegi fyrir páska en Gyðingar héldu páskahátíð löngu fyrir fæðingu frelsarans.


Á vísindavef Háskóla Íslands svarar Hjalti Hugason, fyrrum prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands, spurningu um páskahátíð kristinna manna fyrst páskar voru haldnir hátíðlega fyrir daga Krists.


Lítum hér á brot úr svari Hjalta: „Vissulega var páskahátíðin hátíð Ísraela og Gyðinga löngu fyrir daga Krists. Á henni minntust Ísraelsmenn hinir fornu og síðar Gyðingar frelsunar forfeðra sinna úr ánauðinni í Egyptalandi eins og lesa má um í Annarri Mósebók í Gamla testamentinu.


Það er þó ekki að ástæðulausu að páskarnir urðu frá upphafi helsta hátíð kristinna manna og héldu þeirri stöðu langt fram eftir öldum eða þar til jólin tóku að keppa við þá um vinsældir.


HANDTAKAN, PYNTINGIN, AFTAKAN OG UPPRISAN

Ástæða þessa er sú að mikilvægustu þættina í verki Krists bar einmitt upp á páskahátíð Gyðinga. Er þar átt við handtöku, pyntingar, aftöku og uppstigningu Krists sem lesa má um í lokaköflum allra guðspjalla Nýja testamentsins. Ein ástæðan fyrir því að kristnir menn gerðu páskahátíðina að sinni er því þessi tímasetning.“


Ennfremur: „Páskar Gyðinga eru svokölluð föst hátíð sem alltaf er haldin á sérstökum mánaðardegi samkvæmt tímatali Gyðinga.


Kristnir menn minntust hins vegar upprisu Krists, það er páskadagsins, ætíð á sunnudegi og miðuðu hátíðina við fyrsta sunnudag eftir fyrsta fulla tungl eftir jafndægur á vori. Páskarnir urðu því svokölluð færanleg hátíð.“ - JGH