Á biblíuslóðum: Myndir frá Getsemane-garðinum þar sem Jesús var handtekinn

18. apríl 2025

GETSEMANE-GARÐURINN.  Föstudagurinn langi er síðasti föstudagurinn fyrir páska og þá minnast kristnir menn krossfestingar Jesú Krists. Passíusálmar Hallgríms Péturssonar, sem eru um píslarsöguna, pínu og dauða Jesú Krists, hafa um árabil verið lesnir upp í nokkrum kirkjum landsins á þessum degi sem er mesti sorgardagur kirkjuársins. 


Árið 2019 framleiddi ég heimildarmyndina Á biblíuslóðum þar sem ég dvaldi í Ísrael í fimm daga í mars það ár og ferðaðist um landið og sankaði að mér efni. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá Getsemane-garðinum og Ólífufjallinu. Myndin var síðan sýnd á sjónvarpsstöðinni Hringbraut um jólin það ár.


Eftir síðustu kvöldmáltíðina fóru Jesús og lærisveinar hans yfir Kidron-dalinn í aldingarðinn Getsemane undir vesturhlíð Ólífufjallsins. Þetta er aldingarður af fornum ólífutrjám.


Jesús eyddi síðustu stundum lífs síns með postulunum í Getsemane-garðinum. Þar upplifði hann angist sína og bjó sig undir það sem koma hlaut en hann vissi hvað var í vændum. Og það var í þessum garði þar sem hann var handtekinn.


Trén í garðinum eru þeirrar gerðar að þau verða allt að tvö þúsund ára gömul. Við hlið aldingarðsins er afar falleg kirkja sem nefnd hefur verið ýmist Kirkja allra þjóða eða Kirkja angistarinnar með vísan þá til angistar Jesú. 


Heimildir herma að Júdas hafi hengt sig í þessum garði fullur iðrunnar eftir að hafa svikið Jesú.


Nafnið Getsemane þýðir „ólífupressa“. - JGH

Í þessum garði eyddi Jesús síðustu stundum sínum í angist og hér var hann handtekinn.

Til eru frásagnir af því að Jesús og postularnir hafi oft lagt leið sína í Getsemane-garðinn.

Nafnið Getsemane þýðir „ólífupressa“. Í miðjum aldingarðinum var tæki sem notað var til að kreista ólífurnar þar til þær gáfu dýrmætu olíuna. Grunnur ólífupressunnar er risastór steinskál. Gífurlegur myllusteinn passar í þá skál.

Hér er horft af Ólífufjallinu yfir Jerúsalem. Ólífufjallið er einn vinsælasti útsýnisstaðurinn í borginni.

Hér er horft í átt í Ólífufjallsins frá Davíðssafninu.

Við hliðina á Getsemane-garðinum er afar falleg kirkja sem ýmist er nefnd Kirkja allra þjóða eða Kirkja angistarinnar. Hér er altaristaflan í þeirri mögnuðu kirkju.

Heimildarmyndina Á biblíuslóðum gerði ég á árinu 2019 og sýndi á sjónvarpsstöðinni Hringbraut um jólin það ár. Í myndinni ræði ég við Gunnlaug A. Jónsson, fyrrum prófessor í guðfræði við HÍ, sem er svili minn og við fjölskyldan ferðuðumst með um landið á meðan á dvöl okkar stóð og ég sankaði að mér efni.