Skoðun: Mál málanna, Kristrún á erfitt með að útskýra vikuþögn!

22. mars 2025
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button

Ekki er ég sammála þeim sem halda því fram að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hafi staðið sig vel á blaðamannafundinum í hádeginu í gær. Vissulega var hún róleg og yfirveguð en málefnalega fannst mér hún eiga í vandræðum með að útskýra vikuþögn og aðgerðaleysi sitt, ekki síst í ljósi þess að hún sagði á fundinum að mál Ásthildar Lóu væri „grafalvarlegt“. Inga Sæland notaði meira að segja orðalagið „mannlegur harmleikur“.

 

Ásthildur Lóa lagði sömuleiðis sjálf ákveðin dóm á málið með því að segja af sér. Maður spyr sig hvers vegna hún tók þá ákvörðun fyrst svo margir telja núna að þetta sé ekkert mál heldur fyrst og fremst ofsóknir og heykvíslar fjölmiðla.

 

Málið snýst ekki lengur um Ásthildi heldur Kristrúnu, hvernig forsætisráðherra tók á því – eða öllu heldur tók ekki á því í heila viku eftir að hún vissi um málavöxtu – og það þótt hún liti á málið sem „grafalvarlegt“.

 

AÐGERÐARLEYSIÐ FRÁ 13. MARS

Eðlilega gerði Kristrún allt hvað hún gat á fundinum til að þetta mál smitaðist ekki yfir á hana. Tekst henni það? Eftir stendur sú spurning hvort með aðgerðaleysi sínu í viku, frá 13. mars, hafi ætlunin verið að bíða og sjá hvernig þetta mál þróaðist – og hvort það yrði að einhverju; að það hafi nú ekki þótt alvarlegra en það.

 

Þá fannst mér það ódýr skýring hjá Kristrúnu að afsaka sig með því að engin staðfesting hefði verið komin á sannleiksgildi upplýsinganna, sem hún hefði fengið um Ásthildi Lóu 13. mars, og endurtaka nokkrum sinnum að málið væri opið í málaskrá – og væri þar enn opið og vika væri stuttur tími í stjórnsýslunni. En allt í einu hefðu sannleiksgildi ábendingar konunnar legið fyrir þegar RÚV ætlaði að segja frá.


TVÆR MÍNÚTUR AÐ LEITA Í ÞJÓÐSKRÁ

Það hefði ekki tekið Kristrúnu nema tvær mínútur að fara inn í þjóðskrá og fletta upp á föðurnum og finna út hvenær hann væri fæddur – sem og fletta því upp hvenær sonur þeirra Ásthildar Lóu væri fæddur.

 

Í venjulegu fyrirtæki hefði forstjóri, sem hefði fengið upplýsingar um mál sem hann teldi „grafalvarlegt“ um einn af framkvæmdastjórum sínum, sett það í forgang, rifið upp símann og hringt í viðkomandi á nóinu og spurt: Er þetta rétt?

 

En þetta er víst ekki hægt í ráðuneytunum nema brjóta trúnað, er manni sagt. Sannast sagna á ég bágt með að trúa því að engir símar hafi verið teknir upp í heila viku um málið og engin símtöl átt sér stað baksviðs á milli Kristrúnar, Ingu og Þorgerðar Katrínar um málið og finnst ótrúverðugt að þær Inga og Þorgerður hafi ekki frétt af því fyrr en á krísufundi rétt fyrir útsendingu. Öðru vísi mér áður brá.

 

Eftir því er tekið að Kristrún horfir ætíð á Þorgerði í öllum útsendingum þar sem þær eru saman og Þorgerður kinkar gjarnan kolli til hennar á móti til samþykkis. Leitaði Kristrún virkilega ekki ráða hjá Þorgerði Katrínu í þessu erfiða máli þegar hún vissi málavöxtu?

 

TRÚNAÐARBRESTUR?

Nú er því haldið fram að Kristrún og forsætisráðuneytið hafi brotið trúnað með því að leka nafni konunnar sem bað fyrst 9. mars um fundinn með Kristrúnu og sendi svo efnislegar upplýsingar um málið 13. mars. Sjálfsagt er hægt að hártoga það hvort það heiti leki af aðstoðarmanni Kristrúnar að spyrja Ásthildi Lóu hvort hún þekkti konuna þrátt fyrir það að ráðuneytið hefði lofað konunni algjörum trúnaði og þess utan var á þeim tíma ekki búið að ákveða hvort funda ætti með konunni - sem síðar var ákveðið að gera ekki - en konan hafði sagt að Ásthildur Lóa gæti líka setið fundinn en það væri í höndum Kristrúnar að ákveða það.

 

Sennilega hefði verið best fyrir Kristrúnu að funda með konunni og boða Ásthildi á hann – líkt og konan hafði gefið vilyrði fyrir. Það hefði líklega þýtt að afsögn Ásthildar hefði komið viku fyrr – en ekki í fyrradag. Sömuleiðis var það eflaust dómgreindarleysi hjá Ásthildi að taka þetta ráðuneyti að sér þegar hún metur þetta mál úr fortíð sinni svo viðkvæmt.

 

Þær Kristrún, Þorgerður og Inga ræddu um ábyrga afstöðu ríkisstjórnarinnar í þessu máli og góðan karakter. Ég staldraði við þetta þar sem hamrað var á því að ákvörðunin hefði verið Ásthildar „eftir að þær fóru yfir alla valkosti í málinu“. Eflaust lesa einhverjir á milli línanna að þær hafi gert Ásthildi að segja af sér og er varla hægt að ásaka neinn fyrir að draga þá ályktun. Inga Sæland orðaði það raunar svo að þetta hefði verið „hetjuleg ákvörðun“ Ásthildar.


KRISTRÚN KOMIN MEÐ MÁLIÐ Í FANGIÐ

Núna, þegar umræðan snýst um leka og trúnaðarbrest forsætisráðuneytisins, flækir það málið að konan sem bað um fundinn með Kristrúnu hélt að þessi bomba hennar yrði hávaðalaus og hún gæti fundað með forsætisráðherra og Ásthildur segði bara af sér rétt sísvona. Og þetta virðist hún hafa haldið í alvöru því henni var það í lófa lagið að fara strax með málið í fjölmiðla.

 

Þess í stað þvældi hún blásaklausum forsætisráðherra inn í málið sem á erfitt með að útskýra aðgerðarleysi sitt í svo „grafalvarlegu“ máli; svo sannfærandi sé.

Share by: