úr styrkjamáli Flokks fólksins og sagt að það sé „stormur í vatnsglasi“ sýnist á öllu að það sé farið að taka sinn toll og ekki aðeins að þvælast fyrir ríkisstjórninni heldur beinlínis skaða hana. Enginn velkist í vafa um að Flokkur fólksins er stjórnmálaflokkur með kjörna þingmenn á löggjafarþinginu en nóta bene; án þess að uppfylla lög um fjárframlög til stjórnmálaflokka. Þar liggur hundurinn grafinn og ábyrgðin í þessu máli – hvernig má það vera að þeir sem setja lög fara ekki eftir þeim sjálfir? Það sem meira er; fara vísvitandi ekki eftir þeim! Er til of mikils ætlast? Og oftast er það líka þannig að ósannindi við að koma sér út úr klandri og fréttaflutningi eru verri og íþyngjandi en klúðrið sjálft.
Alþingi breytti lögum um fjárframlög til stjórnmálaflokka haustið 2021 til að auka gegnsæi í fjármálum stjórnmálasamtaka – og setti í lög og lagði á það þunga áherslu að til að fá styrkina þyrftu flokkarnir að skrá sig sem stjórnmálasamtök hjá Skattinum og uppfylla í leiðinni ákveðin skilyrði um innra starf. Þetta var gert til að auka gegnsæi - það var fyrst og fremst gagnvart kjósendum sem þetta ákvæði fékk aukið vægi. Þetta útheimti auðvitað verulega vinnu hjá flokkunum við að afla tilskilinna gagna og samþykkta innan raða þeirra til að uppfylla skráninguna gagnvart Skattinum.
Lögin tóku síðan gildi 1. janúar 2022. Í framkvæmdinni var miðað við að ríkissjóður greiddi flokkunum framlögin eigi síðar en 24. janúar það ár og var það gert þótt svigrúm flokkanna til að afla tilskilinna gagna væri frekar þröngt miðað við dagsetninguna 24. janúar. Á fyrsta ársfjórðungi 2022 voru þó flestir flokkanna búnir að breyta skráningunni og uppfylla skilyrðin nema Flokkur fólksins og Vinstri grænir.
Vinstri grænir gerðu það ekki fyrr en 2024 og Flokkur fólksins hefur enn ekki uppfyllt skráninguna og þrengingar Ingu Sæland núna felast í því að hún vissi allan tímann betur þegar hún tók við styrkjunum að flokkurinn uppfyllti ekki lögin um móttöku þeirra.
Þetta mál er langt frá því að vera búið og mun einungis vinda upp á sig til skaða fyrir ríkisstjórnina. En eftir stendur spurningin – til hvers er löggjafinn að setja lög ef ekki er ætlast til að farið sé eftir þeim og hvað þá ef það er talið léttvægt af þingmönnum að þeir sjálfir hunsi þau? Og hvernig getur fréttaflutningur af slíku hátterni verið „stormur í vatnsglasi“ og snúist upp í að verða þeim að kenna sem flytja fréttir af málinu en ekki þeim sem sýna vísvitandi vanrækslu? Jón G. Hauksson