að nýrri forystu Sjálfstæðisflokksins eftir glæsilegan landsfund flokksins í Laugardalshöllinni í gær þar sem Guðrún Hafsteinsdóttir (50,1%) sigraði Áslaug Örnu Sigurbjörnsdóttur (49,1%) með minnsta mun – eða 19 atkvæðum - til formennsku í flokknum. Þær voru í raun hnífjafnar sem leiðtogar flokksins og það vekur aftur upp spurningar um stöðu Áslaugar innan flokksins eftir þessi úrslit.
Nýkjörinn formaður, Guðrún Hafsteinsdóttir, nefndi í sigurræðu sinni að hún ætlaði að gera Sjálfstæðisflokkinn að breiðfylkingu. „Ég ætla að vera breiðfylking,“ eins og hún orðaði það.
Ekki fór á milli mála að Áslaugu Örnu var mjög brugðið þegar úrslitin voru kynnt - eðlilega! Halda má því fram að Jón Gunnarsson, yfirlýstur stuðningsmaður Áslaugar, hafi gert henni grikk með því að hjóla í Guðrúnu nánast kvöldið fyrir formannskjörið.
Til að Sjálfstæðisflokkurinn nái sér á strik í alþingiskosningum eftir fjögur ár – ef þær verða ekki fyrr – þarf flokkurinn að rífa upp fylgi sitt í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári; gamla höfuðvígi flokksins. Það er algjör forsenda fyrir sókn og sigri í næstu alþingiskosningum undir forystu Guðrúnar. Það var mikið happ fyrir flokkinn að Inga Sæland hefði kippt í spotta og stöðvað nýjar meirihlutaviðræður undir forystu Hildar Björnsdóttur. Við það hefði hin algera óstjórn Dags B. smitast að óþörfu yfir á Sjálfstæðisflokkinn í kosningabaráttunni á næsta ári.
Nefnt hefur verið að Guðlaugur Þór ætli hugsanlega að fara fram í borginni og þá væntanlega sem oddviti flokksins en Hildur Björnsdóttir hefur verið í því hlutverki undanfarin ár. En hvað með Áslaugu Örnu? Hún þarf afgerandi forystuhlutverk eftir svo hnífjöfn úrslit í gær. Ekki dugir að hafa hana á kantinum næstu fjögur árin þar sem Guðrún og Jens Garðar Helgason verða í forsvari fyrir flokkinn. Rödd Áslaugar, sem öflugur leiðtogi, verður að heyrast. Þess vegna gæti það verið sterkur millileikur hjá henni að fara fram í borginni á næsta ári – og vinna þar stórsigur. Takist henni það styrkir hún sig enn frekar sem annar tveggja leiðtoga flokksins og rífur fylgið í leiðinni upp í næstu alþingiskosningum. Hennar tími mun svo koma – þótt sá frasi sé að vísu frátekinn.
Svo hnífjöfn úrslit á milli þeirra Guðrúnar og Áslaugar á landsfundinum í gær eru skilaboð um að þær verði báðar að vera í eldlínunni. Ekkert annað er í stöðunni. Rödd Áslaugar verður að heyrast samhliða Guðrúnar. Hvernig verður það best gert - hvers vegna ekki að hún fari fram í borginni með ferska vinda og alsendis laus við aðkomu að ýmsum grænum gímöldum sem þar er finna?
- Jón G. Hauksson