Blæðingin á mörkuðum stöðvaðist á nokkrum mínútum við tilkynninguna

10. apríl 2025

Í nýjasta þætti HLUTHAFASPJALLSINS, hlaðvarpi okkar Sigurðar Más Jónssonar á Brotkast.is, sýnum við nokkrar athyglisverðar glærur í tengslum við umræðuna um tollamál Trumps - meðal annars glæru um það hvernig Dow Jones rauk upp um 8% á nokkrum mínútum þegar forsetinn ákvað að „fresta“ tollunum; að vísu með því að leggja 10% tolla á 75 ríki nema Kína sem fær á sig um 140% tolla. 


Það er líka athyglisvert í allri umræðunni um þessi tollmál að erlend ríki leggja 370 milljarða dollara tolla á innfluttar bandarískar vörur á meðan Bandaríkjamenn leggja um 50 milljarða tolla á innfluttar vörur frá alþjóðasamfélaginu. Hlutfallið er því 7 á móti 1, Bandaríkjunum í óhag. 


Viðskiptahalli Bandaríkjamanna fór í fyrsta sinn á síðasta ári yfir 1 trilljón dollara og fjárlagahallinn síðustu sex mánuði er í sögulegu hámarki, eða 1,3 tilljónir dollara og stefnir í að verða vel yfir 2 trilljónir dollara á ári með sama áframhaldi.


Sömuleiðis ætti dollarinn að vera löngu búinn að gefa eftir í svo ósjálfbæru hagkerfi. - JGH

Ekkert eitt mál hefur fengið jafnmikla umræðu sérfræðinga og greinenda á erlendum hlutabréfamörkuðum og tollamál Trumps - og sitt sýnist hverjum.