Hitafundurinn í Borgum í gær - þar sem allt fór í háaloft og mikil reiði brast út á meðal íbúa Grafarvogs og þar sem troðfullur salurinn sendi embættismönnum borgarinnar skýr skilaboð um að hann hafnaði tillögunum - fær nokkuð sérkennilega umfjöllun á vef Reykjavíkurborgar í dag.
Ekki er minnst á það hvernig fundurinn leystist upp og hve svakaleg óánægja var með fyrirkomulag fundarins þar sem spurningar fyrir fullum sal voru ekki leyfðar - og hvað þá hve mikill einhugur var meðal fundarmanna um að hafna tillögunum. Þau voru kristaltær skilaboðin sem íbúarnir sendu embættismönnunum á fundinum. Eitt stórt NEI.
ALLT Í GÚDDÍ
Við að lesa færslu embættismanna borgarinnar af fundinum mætti ætla að hann hafi verið sérlega vel heppnaður, vel sóttur og íbúar Grafarvogs sýnt tillögunum mikinn skilning og kynnt sér þær af miklum áhuga í samtali við sérfræðinga borgarinnar eftir kynninguna í upphafi fundarins. Sem sagt: Allt í gúddí.
Fjölsóttur fundur í Grafarvogi, segir á vef Reykjavíkurborgar.
Í frásögninni á vef Reykjavíkurborgar af fundinum er sagt í fyrirsögn: Fjölsóttur fundur í Grafarvogi. Í meginmáli segir svo: „Vel var mætt á kynningarfund um íbúðauppbyggingu í Grafarvogi sem fram fór í Borgum í gærkvöldi. Kynnt voru drög að tillögu um aðalskipulagsbreytingu þar sem frekari uppbyggingarmöguleikar í Grafarvogi eru skoðaðir. Einnig voru kynnt drög að tillögum á einstökum uppbyggingarlóðum.“
Svo segir: „Tillagan hefur tekið breytingum frá síðustu kynningu en búið er að fækka íbúðum úr 476 í 340. Eftir er að þróa tillögur áfram á deilisskipulagsstig. Eftir kynningar var boðið upp á að fræðast nánar um einstök svæði við nokkra skjái í salnum þar sem meðal annars var hægt að ræða við arkitekta um tillögurnar og nýtti hluti fundargesta sér það.“
Þá eru sýndar nokkrir myndir af nokkrum fundarmönnum í lok fundarins (þegar hann hafði leyst upp og flestir farnir) að kynna sér drögin betur á nokkrum skjám í salnum.
Þá kom þetta: Tillagan að aðalskipulagsbreytingunni er inni á skipulagsgatt.is og er fólk hvatt til að kynna sér málið betur og koma með ábendingar. Hægt verður að setja inn athugasemdir til og með 10. apríl.“
Sem sagt: Það var nú ekki hávaðanum fyrir að fara á þessum fundi.
Á vefnum er lagt upp úr að sýna myndir af nokkrum íbúum í lok fundarins - þegar hann hafði leyst upp og flestir voru farnir - í rólegheitum að kynna sér drögin betur á nokkrum í skjám í salnum.