Saltkjöt og baunir: „Kvöld mikilfenglegrar átveislu“

4. mars 2025
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
Saltkjöt og baunir. Matur er mannsins megin. Það var víða hraustlega tekið til matarins í hádeginu og í kvöld á heimilum landsins. Saltkjöt og baunir. Áður var sagt saltkjöt og baunir, túkall. En sá peningur sést hvergi lengur nema hjá forngripasölum. Það er alltaf einhver ljómi yfir þessum þremur dögum; bollu-, sprengi- og öskudegi. Sumir telja meira að segja að sprengidagur sé besti matardagur ársins og fyllast mikilli tilhlökkun þegar dagurinn nálgast; meðan aðrir eru ekki eins æstir í þennan mat og tala um minna salt. Hvað um það; saltkjöt og baunir á þessum degi eru gamall og góður siður.

Sprengidagur eða sprengikvöld er þriðjudagur í föstuinngangi fyrir lönguföstu, 7 vikum fyrir páska og getur borið upp á 3. febrúar til 9. mars. Hann er því frekar seint á ferð þetta árið.

Elsta heimild um hið íslenska heiti dagsins tengist matarveislu fyrir föstuna. Er það í íslensk-latnesku orðasafni Jóns Ólafssonar Grunnvíkings frá því kringum 1735. Þar segir hann Sprengikvöld þýða orðrétt kvöld sprengingar, það er kvöld miklifenglegrar átveislu með allskonar meðlæti en nefnir einnig að þetta sé sveitamál.

Kjöt þótti í kaþólskum sið ekki við hæfi föstuinngangsdagana tvo fyrir lönguföstu (mánudag og þriðjudag) og voru því oft miklar kjötkveðjuhátíðir sunnudaginn eða sunnudagskvöldið þar á undan. Kjötveislan kann við siðaskiptin að hafa flust frá sunnudagskvöldinu yfir á þriðjudaginn. Erlendis nefnist þessi dagur almennt „feiti þriðjudagur“ (mardi gras).

Í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá árunum 1752-57 segir að „Kveld hvíta Týsdags heitir sprengikveld því þá fékk allt vinnufólk svo mikið að eta af hangikjöti sem framast gat í sig látið en ket var síðan ekki etið fyrr en á páskum.“ 

Hangikjöt var lengstum helsti veislukosturinn enda salt af skornum skammti. Frá síðasta hluta 19. aldar er vitað um saltkjöt og baunir á sprengidag og er sú hefð nú almenn.

Share by: