Valtað yfir vilja Grafarvogsbúa! Fulltrúar meirihlutans í borgarráði Reykjavíkur samþykktu að veita vilyrði fyrir uppbyggingu félagslegra íbúða á fyrirhuguðum þéttingarreitum í Grafarvogi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins kusu á móti tillögunum. Sagt er frá þessu í frétt á mbl.is núna síðdegis. Sjá fundargerð borgarráðs frá því í dag.
Þétting byggðar í grónum hverfum í Grafarvogi er mikið hitamál í Grafarvogi og er skemmst að minnast fund embættismanna með íbúum 20. mars sl. þar sem íbúar í Grafarvogi troðfylltu salinn í Borgum og mótmæltu tillögum að breyttu aðalskipulagi sem kynntar voru á fundinum. Svo mikil var andstaðan að allt fór í háaloft á fundinum. Þar mælti Alexandra Briem meðal annars og sagði að svo kröftug mótmæli kæmu henni á óvart og að tekið yrði tillit til sjónarmiða íbúa.
Tími til að leggja fram athugasemdir var upphaflega til 10. apríl en síðan hefur sá frestur verið framlengdur.
Fram kemur í fréttinni á mbl.is að meirihlutinn í borgarráði hafi samþykkti að veita Félagsbústöðum vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að átta íbúðum á nýju þróunarsvæði við Hverafold 7. Á sama þróunarsvæði var samþykkt að veita Bjargi íbúðafélagi vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 16 íbúðum.
Hverafold 7 er þessi litli blettur fyrir neðan verslunarmiðstöðina Torg. Þarna er íbúðum troðið niður alveg ofan í þau fjölbýlishús sem þarna eru fyrir en billinn stendur á stæði fyrir framan þau.
Þá segir ennfremur í frétt mbl.is. „Meirihlutinn samþykkti einnig að veita Bjargi íbúðafélagi vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 18 íbúðum á nýju þróunarsvæði við Starengi og vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 14 íbúðum á nýju þróunarsvæði við Veghús. Þá samþykkti meirihlutinn að veita Búseta húsnæðissamvinnufélagi vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 52 íbúðum á nýju þróunarsvæði við Sóleyjarima.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Hildur Björnsdóttir og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, höfnuðu öllum tillögum á meðan borgarráðsfulltrúar meirihlutans samþykktu þær allar. Einar Þorsteinsson, borgarráðsfulltrúi Framsóknar, sat hjá við afgreiðslu.
„Hluti af þróun húsnæðisuppbyggingar í Grafarvogi eru reitir þar sem fyrirhugað er að byggja upp óhagnaðardrifið húsnæði í samstarfi við óhagnaðardrifin uppbyggingarfélög og tryggja þannig fjölbreyttum tekjuhópum og tekjulágum þak yfir höfuðið og aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu sem og búseturéttarlegu samhengi,“ sagði meðal annars í bókunum meirihlutans við allar tillögur.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðu að áformin væru gerð þvert á vilja íbúa.
Við Sóleyjarrima fyrir neðan Isavia (gamla Gufunesradíó). Búseti húsnæðissamvinnufélag fær vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 52 íbúðum.
Alexandra Briem borgarfulltrúi sagði á hitafundinum í Borgum að tekið yrði tillit til sjónarmiða íbúa og fundarmanna.