Ég finn fyrir miklum meðbyr með kirkjunni - og það er gaman að vera biskup

19. febrúar 2025
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button

Viðtal: Svava Jónsdóttir  

Biskup Íslands , Guðrún Karls Helgudóttir, Grafarvogsbúi og fyrrverandi sóknarprestur í Grafarvogskirkju, segir í viðali við Grafarvogur.net að hún finni fyrir miklum meðbyr með kirkjunni og jákvæðni í kringum biskupsembættið. Þá hafi það komið henni svolítið á óvart hversu fjölbreytt biskupsþjónustan er. 


„Ég vissi að þetta yrði fjölbreytt en þetta er þó enn fjölbreyttara en ég gerði ráð fyrir. Kannski má bæta því við hversu gaman það er að vera biskup Íslands; má segja svona?“ spyr biskupinn og hlær.


Guðrún nýtur þess að vera í samskiptum og tengslum við fólk, ræða trú og kirkju og vill reyna að gera kirkjuna enn sýnilegri í samfélaginu. „Í biskupsþjónustunni legg ég mikla áherslu á að vera í samskiptum við fólk og hef lagt mig fram um að tengjast sem flestu kirkjufólki vítt og breitt um landið. Það geri ég meðal annars með því að vera með skrifstofu biskups í öllum landshlutum.“


EKKI MARGIR BISKUPAR MARAÞONHLAUPARAR

Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með biskup á FB að hún er mikill hlaupagarpur – maraþonhlaupari – og gefur sér tíma til að hlaupa reglulega en Guðrún segist hafa byrjað að hlaupa af einhverju viti fyrir um það bil 15 árum. 


„Hér áður fyrr vissi ég fátt leiðinlegra en að hlaupa en mig langaði samt alltaf að geta hlaupið og fann það út að ef ég hlustaði á hljóðbækur á meðan ég hljóp þá var það gaman. Ég komst fljótlega að því að þetta væri hin besta andlega hvíld og íhugun og um leið áreynsla og áskorun. Ég fór smám saman að stunda meiri hlaup og er búin að vera í Skokkhópi Fjölnis í mörg ár.“


Guðrún segir að það sem hlaupin gefi sér sé útrás. „Þetta er svo góð hugarhreinsun. Ef ég hleyp nokkra kílómetra eftir erfiðan og þungan dag þá fjúka áhyggjurnar og þyngslin svolítið út í vindinn á meðan ég er að hlaupa. Svo getur þetta verið góð leið til þess að hugsa; ég fæ rými til þess að íhuga og hugsa og sem jafnvel predikanir í huganum á meðan ég hleyp. En svo er annað; ég tilheyri hlaupahópi eins og ég nefndi og á góða hlaupafélaga og það getur því verið hin besta skemmtun að hlaupa með þeim og ræða málin. Oft eiga sér stað djúp og góð samtöl á hlaupum og þá sérstaklega í löngu hlaupunum.“


Guðrún hefur hlaupið maraþon erlendis og á tvö eftir til að ná markmiði sínu. Hún tekur þátt í því sem kallast Abbott World Marathons en hún er þá að safna sex stærstu hlaupum í heimi og er búin með fjögur af þeim en hún á eftir að hlaupa í Tókýó og Boston. 


„Ég hef þó verið að færa mig aðeins meira yfir í utanvegahlaup; ég finn að þau gefa mér meiri gleði heldur en götuhlaupin.“


FÓTBROTNAÐI ILLA Í ÁSTRALÍU 

Guðrún fór í námsleyfi í ársbyrjun 2020 og hélt ásamt fjölskyldu sinni til Ástralíu þar sem hún fór í námsleyfi og Einar Sveinbjörnsson, maðurinn hennar, fór í rannsóknarleyfi frá Háskóla Íslands. Eftir að hafa verið þar í tvo mánuði var hún einn daginn úti að hlaupa og datt og fótbrotnaði illa.


 „Ég eiginlega mölbraut á mér ökklann; þríbrotnaði. Ég þurfi að fara í aðgerð á sjúkrahúsi í Brisbane í Ástralíu og svo var ég meira og minna lokuð inni í íbúð á 38. hæð þar sem Covid skall á einmitt á sama tíma. Þetta hljómar mjög dramatískt þegar ég segi þetta svona. Það er reyndar fallegur garður þarna rétt hjá sem við fórum í á hverjum degi, og ég á hækjunum, og þar gerði ég æfingarnar mínar. 


SKRIFAÐI BÓKINA Í AUGNHÆÐ - HVERSDAGSHUGLEIÐINGAR

Það var allt mjög strangt þarna á þessum tíma vegna Covid og fylgdist herlögreglan með fólki úti á götu og gætti þess að fólk gengi ekki of þétt saman og kannaði hvort fólk sem gekk hlið við hlið byggi ekki örugglega saman; það þurfti annars að halda eins og hálfs meters fjarlægð.“


Guðrún nýtti annars þessa mánuði vel og skrifaði bók sem hún var búin að ákveða að skrifa í þessu námsleyfi. Bókin heitir Í augnhæð - hversdagshugleiðingar og fylgja henni spjöld með örhugleiðingum.


MESSUSÓKN GÓÐ UM HÁTÍÐARNAR

Síðustu jól voru fyrstu jól Guðrúnar sem biskup Íslands. En vernig var jólahátíðin yfir heildina í kirkjum landsins? „Messusókn var ákaflega góð í kirkjum landsins um hátíðarnar. Prófastar um allt land hafa nefnt að aðsókn í helgihald hafi aukist á milli ára; að þátttakan sé búin að ná sér aftur á strik eftir Covid og vel það.“


Guðrún segir að þetta árið hafi fjölskyldan sótt aftansöng í Dómkirkjunni sem er kirkja biskups. „Ég var ekki með hlutverk í þeirri guðsþjónustu en aftansöngur biskups, sem sýndur var á RUV á aðfangadagskvöld, var tekinn upp í Reynivallakirkju í Kjós nokkrum dögum fyrir jól. Biskup Íslands hefur löngum predikað í Dómkirkjunni á jóladag og nýársdag sem ég gerði með mikilli ánægju. Þá tók ég að mér nokkrar skírnir og hjónavígslur, enda eru þau mörg sem vilja gifta sig og bera börn sín til skírnar um jól og áramót. 


Í erindindu á jóladag ræddi ég meðal annars samskipti kirkju og skóla og mikilvægi þess að börn læri Biblíusögur og þekki menningu sína og uppruna. Á nýársdag kom ég inn á ýmislegt gott sem óx úr áföllum síðasta árs og kallaði eftir úrbótum í geðheilbrigðismálum hér á landi og opnari umræðu um geðsjúkdóma.


HEFÐBUNDIÐ JÓLHALD

Guðrún segir að aftansöngurinn í kirkjum landsins á aðfangadag sé sú helga stund þegar hátíðleiki aðventunnar og jólanna stigmagnast og kyrrðin og kærleikurinn umvefji okkur öll. Það hafi verið dásamlegt að vera við aftansönginn í Dómkirkjunni og eftir þá dýrmætu stund hafi öll fjölskyldan komið saman heima hjá þeim hjónum.


„Einar, maðurinn minn, sá um matinn. Reyndar hjálpuðust allir að við á lokametrunum. Við vorum þrettán saman að þessu sinni  en fjöldinn er aldrei alveg sá sami á milli ára. Á gamlárskvöld erum við yfirleitt hjá foreldrum mínum í Kópavogi ásamt stórfjölskyldunni og svo var einnig þetta árið. Ég vaki sjaldnast lengi fram eftir þetta kvöld enda nýársdagur stór og viðburðaríkur dagur í kirkjunni og betra að vera vel hvíld.“


En gafst einhver tími til að hlaupa í önnum helgihaldsins?

„Já, ég náði að venju að hlaupa bæði í Kirkjuhlaupi Fjölnis og Grafarvogskirkju á annan í jólum og svo tók ég þátt í Gamlárshlaupi ÍR. Mér finnst gott að kveðja árið með hressandi hlaupi,“ segir biskup Íslands, Guðrún Karls Helgudóttir.

Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands. „Ég finn fyrir miklum meðbyr með kirkjunni og jákvæðni í kringum biskupsembættið.“

„Í biskupsþjónustunni legg ég mikla áherslu á að vera í samskiptum við fólk.“ 

Share by: