Bréf frá útgefanda: Nýr vefur í loftið - Grafarvogur.net

18. febrúar 2025
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
Það er með mikilli ánægju sem ég kynni hér til leiks frjálsan, óháðan og ókeypis vefmiðil sem hlotið hefur nafnið Grafarvogur.net og er gefinn út af JGH-miðlum slf. Eigendur erum við hjónin Jón G. Hauksson og Helga Brynleifsdóttir en útgáfan hefur haldið utan um ýmis verkefni mín á sviði fjölmiðlunar. Ég er ritstjóri og ábyrgðarmaður vefsins. Markmiðið er að hann verði fróðlegur, léttur og líflegur – og vonandi líka skemmtilegur.

SAMNEFNARI UMRÆÐUNNAR
Hann er hugsaður sem eins konar samnefnari frétta, pistla og umræðna í Grafarvogi, Grafarholti og Ártúnsholti en vefurinn mun ekkert síður láta landsmálin, viðskiptalífið og þjóðmálaumræðuna sig varða – og hafa skoðun á þeim málum. Það er iðandi mannlíf og viðskiptalíf á svæðinu og félagsstarf með miklum blóma; Fjölnir, Fram, Golfklúbbur Reykjavíkur, Grafarvogskirkja, Guðríðarkirkja, Lions, Rotary og einstakur skákáhugi, svo nokkuð sé tínt til. Útivisitin blómstrar og gönguleiðir eru margar og skemmtilegar.

Ennfremur mun ég með tímanum rifja reglulega upp gamlar fréttir og sögur frá 43 ára ferli mínum í blaðamennsku.

GERJUN Í MÁLEFNUM BORGARINNAR
Mikil gerjun er í málefnum borgarinnar um þessar mundir – og sem snerta okkur á svæðinu. Nægir að nefna fyrirhugaða íbúabyggð í landi Keldna og Keldnaholts, Ártúnshöfða, Úlfarsárdal, þéttingu ýmissa reita innan Grafarvogshverfisins sem hefur mætt mikilli andstöðu, rándýra borgarlínu, umhverfismál, umferðarmál, átök um flugvöllinn og erfiða fjárhagsstöðu borgarinnar. Þá er Mosfellsbær að vinna deiliskipulag að glæsilegri íbúabyggð í Blikastaðalandi sem verður blómleg og áberandi í túnfæti okkar Grafarvogsbúa. Þá er á döfinni að reisa nýjan verslunarkjarna við hliðina á Korputorgi. Spennandi verkefni þar fram undan.

FRUMBYGGI Í GRAFARVOGI
Aðeins um mig sjálfan. Við hjónin erum frumbyggjar í Grafarvogi og höfum búið hér í 37 ár. Ég er viðskiptafræðingur, cand. oecon, frá Háskóla Íslands vorið 1980 og hóf fyrir algera tilviljun störf í blaðamennsku vorið 1982. Ég var ritstjóri Frjálsrar verslunar í aldarfjórðung, eða frá 1992 til 2017, og með sjónvarpsþáttinn Viðskipti með Jóni G. í átta ár, frá 2015 til 2022. Þá hef ég einnig framleitt heimildarmyndir fyrir sjónvarp og komið að útvarpsþætti. Og nóta bene; ég gaf út fyrsta blaðið hér í Grafarvogi fyrir jólin 1991; fyrir 34 árum, og hét það einfaldlega Grafarvogur. Ekki urðu blöðin fleiri enda verkefnin næg á vettvangi Frjálsrar verslunar. 

MEÐ NOKKUR JÁRN Í ELDINUM
Ég verð sjötugur á þessu ári og er enn með nokkur járn í eldinum, eins og hlaðvarpið Hluthafaspjallið með félaga mínum Sigurði Má Jónssyni og hið árlega tímarit Fjármál og ávöxtun sem er úttekt á bestu ávöxtuninni í fjármálakerfinu á Íslandi hverju sinni; þ.e. hvar sé best að fjárfesta. Vefurinn er því eins konar viðbót við þá flóru fjölmiðlunar sem ég hef fengist við. 

Ýmsir hafa spurt mig hvað mér gangi eiginlega til að setja vef í loftið við starfslok og hef ég svarað því til að mig langi til að tipla aðeins lengur á tánum í útgáfu og fréttamennsku - mismikið auðvitað eftir öðrum önnum dagsins - og að líta megi á vafstrið og vefinn sem sjálfbært áhugamál í ellinni.

Vefurinn er öllum opinn. Hann er um fólk, fyrirtæki og félagasamtök í Grafarvogi, Grafarholti og nágrenni en kúrsinn líka tekinn í viðskiptum, landsmálum og þjóðmálaumræðinni til að viðhalda sér þar sömuleiðis. 

Hann er því í rauninni um allt og fyrir alla – svo einfalt er það. Gjörið svo vel!
                                                                                                                                                          Jón G. Hauksson
Share by: