Kvikmyndin A Complete Unknown um Bob Dylan á árunum 1961 til 1965 er einstök gæðamynd og ég naut hverrar mínútu. Var meira að segja ekki búinn að fá nóg við lok myndarinnar og vildi meira bíó. Hún er ein af þessu myndum sem maður verður að sjá í bíó; það er ekki síst vegna tónlistarinnar í myndinni; hljóðið er svo framúrskarandi og gerir sig upp á tíu í hljóðkerfum bíóhúsanna. Myndin er 141 mínúta að lengd (2 klst. og 21 mínúta) - en tíminn týndist alveg.
Myndin er tilnefnd til 8 Óskarsverðlauna og eitthvað segir mér að hún eigi eftir að raka til sín verðlaunum. Það var búið að hæla þessari mynd mikið áður en ég skellti mér í bíó – en engu að síður fór hún langt fram úr væntingum.
Myndin er um ákveðið æviskeið Bob Dylans, árin 1961 til 1965, og er ekki hefðbundin ævisaga frá vöggu til grafar. Hún byrjar á því þegar Dylan, (Timothee Chalamet), kemur algerlega óþekktur til New York, kemst í kynni við góða tónlistarmenn og þeir koma fljótt auga á snilld Dylans.
Tónlistin skipar verðugan sess í myndinni og henni fléttað þannig inn í handritið að hún talar sínu máli ein og sér. Timothee Chalamet leikur Bob Dylan af hreinni snilld og nær t.d. augnaráði Dylans upp á tíu.
Annars er þetta er þéttur og góður hópur leikara. Hin hrífandi Monica Barbaro leikur Joan Baez og er mjög eftirminnileg í því hlutverki – sem og Edward Norton í hlutverki Pete Seeger. Bæði með stórleik. Lang síðan ég hef séð Edward Norton svo góðan. Þá fannst mér Boyd Holbrook góður sem vel töffaður Johnny Cash.
Það þarf svo sem ekki fleiri orð um þessa góðu mynd. Bara að drífa sig og sjá myndina í bíó.Tónlistin í myndinni gerir það að verkum að hljóðkerfi bíósalanna skila henni lengra. Engin spurning; þessi mynd fer fram úr væntingum.
New York 1961. Myndin er um æviskeið Bob Dylans, árin 1961 til 1965.
Hin hrífandi Monica Barbaro leikur Joan Baez og er mjög eftirminnileg í því hlutverki.
Edward Norton er með stórleik í hlutverki Pete Seeger. Norton með allra besta móti.
Ég spái því að myndin fái nokkra Óskara.