Jón Karl Ólafsson: Sýnin á lífið gjörbreytist frammi fyrir slíkum vágesti

26. febrúar 2025
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button

VIÐTAL: SVAVA JÓNSDÓTTIR

Við birtum hér seinni hluta viðtalsins við Jón Karl Ólafsson, umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi, en Svava Jónsdóttir blaðamaður tók viðtalið fyrir Grafarvogur.net.  Við byrjum úti í Þýskalandi, flytjum okkur svo í Grafarvoginn þar sem Jón Karl var formaður Fjölnis í fimmtán ár, ræðum hljómsveitalífið og hvernig tónlistin hjálpaði honum í baráttunni við krabbameinið sem fannst fyrir tilviljum og förum yfir þær góðu leiðbeiningar sem Jón Karl hefur til þeirra sem lenda í slíkum hremmingum og heyja baráttu sína fyrir því sem okkur finnst svo sjálfsagt; sjálfu lífinu.


Í þeirri baráttu, segir hann að hugarfarið skipti öllu máli og það þurfi að reyna af öllum mætti að nálgast þetta verkefni með jákvæðni: „Reyna hvað maður getur til að halda kollinum í lagi og reyna að byggja sig áfram eins mikið upp og hægt er til þess að vera fljótari upp þegar og ef maður nær í gegnum skaflinn.“


En við byrjum á því að fara til Þýskalands, Frankfurt. Árið er 1994 og Jón Karl búinn að vinna hjá Icelandair í tíu ár.


YFIRMAÐUR ICELANDAIR Í EVRÓPU

„Ég leit alltaf á þetta sem forréttindastarf í Þýskalandi og það gaf mér gríðarlega mikilvæga reynslu,“ segir Jón Karl um árin í Þýskalandi þar sem fjölskyldan bjó í um fimm ár á árunum 1994 til 1999.


„Ég var yfir söluskrifstofum á meginlandi Evrópu. Á þessum tíma var ferðaþjónusta til Íslands á byrjunarstigi og að einhverju leyti vorum við þátttakendur í að byggja upp þann grunn sem við höfum í dag. Á þessum tíma var flug mjög árstíðabundið og það heyrði til mikilla undantekninga ef einhver eftirspurn var eftir vetrarferðum til Íslands. Það var nokkuð góð og vaxandi eftirspurn eftir sumarferðum en þetta gat samt verið mjög sveiflukennt. 


FLUGIÐ EIN AF ÁSTÆÐUM VELMEGUNAR Á ÍSLANDI

Uppbygging ferðaþjónustu á Íslandi hefur leitt til þessa frábæra framboðs á flugi til og frá Íslandi. Við njótum nú frábærrar þjónustu allt árið um kring frá bæði innlendum og erlendum flugfélögum. Tíðni í flugi til og frá Íslandi er mun meiri en stærð innanlandsmarkaðar gefur tilefni til. Ég tel þetta vera eina af meginástæðum velmegunar á Íslandi og þetta er undirstaða í öflugum hagvexti hér á landi.“


Það var árið 1984 sem Jón Karl hóf störf hjá Icelandair - eða Flugleiðum eins og félagið var almennt kallað þá - og starfaði fyrir félagið til ársins 2008, eða í rúm 25 ár. „Mikið markaðsstarf hefur byggt upp þá ferðaþjónustu sem við þekkjum í dag. Á upphafsárum ferðaþjónustu höfðu margir Íslendingar þá skoðun að Ísland væri miðpunktur alheimsins og að allir vissu allt sem vita þarf um land og þjóð. Maður þurfti að læra hratt að Ísland er lítill staður sem þarf svo sannarlega að markaðssetja og því fylgir mikil vinna.“

Jón Karl ásamt eiginkonu sinni, Völu Möller.


BJUGGU Í ÚTHVERFI FRANKFURT

Fjölskyldan bjó í úthverfi í Frankfurt á árunum í Þýskalandi og segir Jón Karl að þetta hafi verið góður tími og frábært að búa þar; að sjálfsögðu voru margar áskoranir, svo sem að börnin fóru í þýskan skóla, en hann segir að eftir á hafi þetta verið eflandi fyrir alla í fjölskyldunni.

 

Hann nefnir að gaman hafi verið að prófa að búa í öðru landi og kynnast annarri menningu. Fjölskyldan eignaðist mikið af nýjum vinum og persónulega var þetta að hans sögn æðislegur tími. „Við bjuggum í raun í miðri Evrópu og það var stutt að fara í allar áttir. Það var auðvelt að komast á skíði og í ýmsa aðra skemmtilega afþreyingu. Þetta var frábær tími fyrir fjölskylduna og við gerðum mikið og ferðuðumst mikið. Vinnulega séð var ég mikið á ferðinni og var mikið á Íslandi, enda eru og voru höfuðstöðvar félagsins á Íslandi.“

 

Við heimkomu varð Jón Karl framkvæmdastjóri fyrir Flugfélag Íslands og var þar í um fimm ár. Árið 2005 varð hann síðan forstjóri Icelandair og síðast Icelandair Group og gegndi því starfi fram til ársins 2008.

 

„Eftir það tók ég við sem forstjóri hjá leiguflugfélaginu Primera Air og var þar við störf í um sjö ár. Það félag er því miður ekki lengur til en það flutti starfsemi sína til Litháen og það gekk ekki upp til lengdar. Ég vann síðan sem framkvæmdastjóri innanlandsflugvalla hjá Isavia í um tvö ár en hef síðan verið sjálfstætt starfandi, meðal annars sem ráðgjafi. Ég er nú heldur farinn að slaka á, enda aldur eitthvað að færast yfir.“

Fjölskyldan fluttist í Grafarvogshverfið við komuna til Íslands og fljótlega settist Jón Karl í aðlstjórn Fjölnis

þar sem hann sat í 21 ár - þar af í 15 ár sem formaður.


GRAFARVOGUR ER YNDISLEGUR STAÐUR

Þegar fjölskyldan flutti til Íslands eftir árin í Þýskalandi festu hjónin kaup á eign í Grafarvogi. „Grafarvogur er yndislegur staður. Við kynntumst í Þýskalandi að í stórborg eins og Frankfurt búa flestir í minni þorpum eða bæjum í kring og við upplifðum Grafarvog svolítið svipað og vorum að sækjast í að vera stutt frá náttúrunni og golfvöllum og að stutt væri að komast út úr bænum. Svo er í hverfinu öll þjónusta, frábær aðstaða og frábært íþróttafélag; allt sem við vorum að leita að í raun og veru er í Grafarvogi.“

 

Jón Karl og eiginkona hans seldu húsið í hittifyrra og fluttu í Kópavog. „Ég hefði gjarnan viljað búa áfram í Grafarvogi eða jafnvel í öðrum hverfum í Reykjavík. Vandinn er sá að það er ekki verið að byggja nægilega mikið af húsnæði sem passar fólki sem er að fara úr einbýli í íbúð þar sem bílastæði fylgir eins og við vorum að leita að. Auk þess er umferð orðin þannig í borginni að það skiptir miklu máli hvar maður býr ef ekki á að eyða miklum tíma í umferðatöfum.“

 

FORMAÐUR FJÖLNIS Í FIMMTÁN ÁR

Við komuna til Íslands fór Jón Karl fljótlega að vinna fyrir Fjölni sem hann segir að sé besta íþróttafélagið, að minnsta kosti í Grafarvogi. Hann settist í aðalstjórn félagsins árið 2004 og varð síðan formaður aðalstjórnar frá 2009-2024. Hann var því formaður félagsins í 15 ár og var samfellt í aðalstjórn í um 21 ár. 

 

„Það var mjög gefandi að vinna fyrir svona stórt og öflugt félag eins og Fjölnir er. Félagið er með flesta iðkendur allra félaga, enda starfa um 11 deildir innan félagsins. Aðstaða félagsins var frekar bágborin en það hefur breyst mikið á undanförnum árum. Við erum mjög stolt af aðstöðu félagsins í Dalhúsum og Egilshöll. Enn á eftir að ganga frá endanlegri og löglegri keppnisaðstöðu fyrir knattspyrnu en önnur aðstaða er orðin frekar góð. Félagið er öflugt og verður eflaust áfram stórveldi í íþróttastarfi hér á landi.“

Hljómsveitin Nostal hittist vikulega. Tónlistin reyndist Jóni Karli góður bandamaður í veikindunum og hann

gantast með það að þarna hafi hann lokisins orðið skallapoppari. „Ég lít á tónlistina sem geðlyf.“


TÓNLISTIN ER EINS OG GEÐLYF

Jón Karl hefur í gegnum áratugina verið hljómborðsleikari í ýmsum hljómsveitum og hann segir að tónlistin sé eins og geðlyf. Tónlistin hafi hjálpa sé mikið þegar höggið kom undir árslok 2021 þegar hann greindist með krabbamein.

 

„Ég lít á tónlist sem hálfgerð geðlyf. Ég er búinn að vera í hljómsveitum eiginlega síðan ég man eftir mér og hef alltaf notað tónlist til að létta lund. Það er erfitt að vera fúll og leiðinlegur þegar maður er að spila með góðum félögum. Ef eitthvað bjátar á þá þarf ekki nema um 10-15 mínútur við píanóið til að ná sönsum aftur.

 

Ég spilaði í ýmsum hljómsveitum í gegnum nær alla mína skólatíð. Þetta voru helst litlar hljómsveitir og jafnvel vorum við með tríó. Við spiluðum á árshátíðum og dansleikjum og við vorum lengi með hljómsveit sem spilaði gömlu dansana. Ég varð einu sinni næstum því frægur þegar hljómsveitin Basil fursti var og hét á árunum 1978-1979. Ég sá þó fljótlega að þetta líferni væri ekki fyrir mig og ég hætti hugleiðingum um heimsfrægð í kjölfarið. Núna á seinni árum er ég með nokkrum hópum sem eru að hittast til að spila og leika sér saman.

 

HLJÓMSVEITIN NOSTAL HITTIST VIKULEGA

Stærsta verkefnið er hljómsveit sem við köllum Nostal. Við hittumst vikulega að vetri og leikum okkur og erum jafnvel með tónleika fyrir áhugasama. Ég held reyndar að við skemmtum okkur betur en flestir tónleikagestir á flestum þessum tónleikum. Við erum að spila ýmiss konar tónlist og erum jafnvel með hávaða í þessum gjörningum okkar.“

 

Tónlistarmaðurinn Jón Karl segist vera hálfgerð alæta á tónlist. „Ég hlusta mikið á á djassskotna, Mezzoforte/Steely Dan tengda tónlist. Nostal er núna að spreyta sig á ELO og við verðum með tónleika í mars þar sem við ætlum að flytja þetta aftur. Áður höfum við verið að vinna með Uriah Heep, Rainbow og ýmislegt annað gamalt og gott. Þetta er allt tónlist sem maður hefur alist upp með og sem hefur fylgt manni í gegnum lífið.“

Jón Karl og Vala eiga átta barnabörn og það níunda er á leiðinni. Hann segir að sýnin á lífið breytist algjörlega frammi fyrir þeim vágesti sem krabbameinið sé og að fjölskyldan verði það sem skipti öllu máli - og miklu meira heldur en einhverjir aðrir hlutir eins og vinna og veraldleg gæði.


KRABBAMEINIÐ - LÍFSREYNSLA SEM BREYTIR ÖLLU

Jón Karl greindist með krabbamein í lok árs 2021 og meinið uppgötvaðist fyrir hálfgerða tilviljun. „Það er mjög sérstök lífsreynsla og breytir ýmsu varðandi forgangsröð. Einhvern veginn er það þannig að við upplifum okkur oft nær ódauðleg en að sjálfsögðu er það ekki þannig. Svona lífsreynsla breytir öllu - bæði í forgangsröðun og því hvað við metum mest í lífinu.

 

Ég greindist þarna með magakrabba. Ég fann reyndar ekki fyrir miklum einkennum en hafði á tilfinningunni að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera. Ég fór að fá hungurtilfinningu strax eftir góða máltíð og mér þótti þetta sérkennilegt og þetta truflaði mig eitthvað. Ég fór á heilsugæslu til skoðunar og þar fannst ekki neitt.

 

Ég var raun í fínu formi og helst var talið að þetta væri bakflæði sem væri að trufla mig. Ég fékk einhver lyf við því en það breytti litlu. Þetta endaði þannig að ég bar þetta undir góðan vin minn sem er læknir og hann sagði mér að koma til sín í magaspeglun. Hann taldi ekki miklar líkur á því að eitthvað væri að en annað kom víst í ljós. Það fannst æxli í maga sem virtist vera hratt stækkandi og var þegar orðið nokkuð stórt. Það er erfitt að taka við slíkum fréttum.“

 

SETTUR Í „HROSSASKAMMTA“ AF HÁTÆKNILYFJUM

„Upphaflega átti að skera mig upp en það kom síðan í ljós að þetta æxli var þeirrar gerðar að ákveðið var að byrja að minnsta kosti á lyfjameðferð. Ég fékk frábæra þjónustu hjá frábæru fagfólki. Ég var settur á „hrossakammta“ af hátæknilyfjum og var í lyfjameðferð stóran part af árinu 2022. Þetta var mikil upplifun. Sem betur fer höfðu lyfin strax mikil áhrif og unnu á þessum ófögnuði sem var þarna í maganum. Þessi lyf eru frábær en eru í raun mikið eitur sem eru gerð til að drepa þessar óæskilegu frumur. Þetta hefur miklar hliðarverkanir.

 

VARÐ FORMLEGA SKALLAPOPPARI

 „Ég missti hárið og varð því formlega skallapoppari og þetta hefur einnig áhrif á allt ónæmiskerfið og dregur mátt úr sjúklingum. Ég náði sem betur fer að vinna mig vel í gegnum þetta. Ég reyndi að halda áfram daglegu lífi. Ég fór reglulega í ræktina og ég hélt áfram að spila með strákunum. Við héldum meira að segja tvenna tónleika á meðan á lyfjagjöf stóð en ég verð að viðurkenna að ég var oft orðinn frekar þreyttur í lok þessara tónleika. Sem betur fer fór þetta vel og æxlið er farið og ég er útskrifaður úr frekari meðferð. Hugafarið skiptir miklu máli í slíku ferli og ég held að það sé ákveðinn lykill að reyna að mæti svona mótlæti með eins jákvæðum hug og mögulegt er.“

 

Jón Karl er kvæntur Völu Möller og eiga þau fjögur börn, átta yndisleg barnabörn og er það níunda á leiðinni. Hann segir að fjölskyldan sé það sem skipti öllu máli í lífinu og miklu meira heldur en einhverjir aðrir hlutir eins og vinna og veraldleg gæði. „Maður fær aðeins aðra sýn á þetta allt saman þegar staðið er frammi fyrir svona vágesti. Ég held að flestallir sem hafa upplifað slíka reynslu hafi þá skoðun að forgangsröðunin verður önnur og breytist.“

 

MAÐUR Á AÐ NJÓTA MEÐAN MAÐUR GETUR

„Maður á að njóta á meðan maður getur. Það er ekkert sjálfgefið að maður geti notið einhvern tímann seinna. Við verðum að nýta og nota það sem við höfum á meðan við getum og vera jákvæð og hafa gaman af því sem við erum að gera.

 

Það er svo annar lærdómur að hugarfarið skiptir gríðarlega miklu máli í því sem við tökum okkur fyrir hendur. Það eru margir sem nálgast lífið með glasið hálftómt. Það getur verið mjög einfalt að gefast upp við mjög slæmar fréttir og sjá lítið annað en svart fram undan. Það hjálpar sjaldnast til við að vinna úr hlutum. Ég held að það sé betra að reyna að nálgast verkefni með jákvæðni, reyna hvað maður getur til að halda kollinum í lagi og reyna að byggja sig áfram eins mikið upp og hægt er til þess að vera fljótari upp þegar og ef maður nær í gegnum skaflinn,“ segir Jón Karl Ólafsson að lokum.

 

Share by: