Slæm ákvörðun! Þetta kemur fram í kveðju frá Fannýju Gunnarsdóttur, formanni íbúaráðs Grafarvogs, (núna fyrrverandi), á FB-síðu Íbúa í Grafarvogi um þá ákvörðun nýja meirihlutans í borginni að leysa öll íbúaráð í borginni frá störfum.
„Eins og mörg ykkar hafið eflaust tekið eftir þá hefur nýr meirihluti í Reykjavík ákveðið að leysa íbúaráðin í borginni frá störfum. Að mínu mati er þetta slæm ákvörðun. Íbúaráð eru hugsuð sem vettvangur íbúa, bakhópa hverfisins, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda,“ segir Fanný í kveðjunni.
„Íbúaráðin styttu boðleiðir og auðvelduðu íbúum að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Það hefði verið nær að auka vægi íbúaráð og heimildir þeirra til ákvarðanatöku. Auðvitað hefði mátt skoða verklag og verksvið – en það var því miður ekki gert. Eðlilega eru ekki allir alltaf sammála, en íbúaráð eru góður vettvangur fyrir uppbyggileg skoðanaskipti.
Við sem sátum í íbúaráði Grafarvogs komum nær öll úr Grafarvogi – sem var mjög gott – ýmist fædd hér og uppalin eða búið hér áratugum saman. Við komum að ýmsum málum, tókum við ófáum erindum frá íbúum, öfluðum upplýsinga og komum þeim á framfæri. Ég sem formaður íbúaráðs hef t.d. fengið fjöldann allan af erindum og fyrirspurnum beint frá íbúum og reynt að svar þeim og leiðbeina eftir bestu getu. Einnig upplýstum við íbúa, ýmist á fésbókarsíðum eða með greinum í Grafarvogsblaðinu.
En svona er lífið, við hér í Grafarvogi höldum áfram að fylgjast með okkar málum og nýtum vel ábendingavef borgarinnar. Ég vil fyrir hönd íbúaráðs þakka íbúum Grafarvogs fyrir samtal og samvinnu á liðnum árum - og áhuga á málefnum hverfisins.“
Í tilefni af þessum nýju vendingu í borginni hvetur
Grafarvogur.net alla íbúa hverfisins til að senda okkur línu og ábendingar um það sem betur má fara og þið viljið koma á framfæri.