EYRIR INVEST. Við Sigurður Már ræðum m.a. um málefni Eyris Invest í nýjasta Hluthafaspjallinu okkar á Brotkast.is en stjórn félagsins áformar að bjóða hluthöfum í félaginu útgöngu út úr fjárfestingarfélaginu með greiðslu bréfa í JBT-Marel. Sjá myndskeið.
Um 90% af eignum Eyris Invest voru í Marel. Við samruna JBT og Marels fékk Eyrir 90 milljarða í sinn hlut; 25% í formi reiðufjár og 75% í formi hlutabréfa í JBT-Marel.
Eyrir Invest átti 24,7% í Marel og var þar langstærsti hluthafinn. Þeir feðgar Árni Oddur Þórðarson og Þórður Magnússon eru stærstu hluthafar í Eyri Invest með um 29,0% hlut en hann var áður um 38,5%. Fram kom meðal annars í Viðskiptablaðinu í nóvember 2023 að hlutur Árna Odds í Eyri hafi farið úr 18% í 13% eftir veðkall Arion banka. Hlutur föður hans, Þórðar Magnússonar, minnkaði úr 20,7% í 16,2% í sömu aðgerð.
Aðrir stórir hluthafar Eyris eru Landsbankinn, (14,2%), LSR-lífeyrissjóður, (14,2%), Lífeyrissjóður verslunarmanna, (11,60%), Arion banki (8%) og Birta lífeyrissjóður, (3,10%.)
Sagt frá því í nóvember 2022 að Eyrir Invest hefði skrifað undir samkomulag við fjárfestingarsjóðina JNE Partners LLP og The Baupost Group um 175 milljóna evra lán til fjögurra ára með 8% hlut í Marel að veði, þ.e. að með samkomulaginu fengju sjóðirnir rétt til að eignast 8% hluti í Marel frá Eyri í lok lánstímans. Þessi gjörningur skapaði nokkurn óróa meðal annarra hluthafa í Eyri.
Þá má geta þess að greint var frá því í Innherja Vísis í lok janúar 2024 að Árni Oddur hefði gert upp skuld við Landsbankann eftir að hafa fengið inn nýtt fjármagn að virði allt að 2,5 milljörðum í félag sitt frá nokkrum þekktum innlendum fjárfestum.
Marel var um árabil flaggskip íslensks atvinnulífs og er það svo sem ennþá á sinn hátt - sem JBT Marel en það telst sjálfsagt í grunninn sem bandarískt félag og er bæði skráð í New York og í kauphöllinni hér heima, Nasdaq Iceland, og er að virði um 900 milljarðar króna.
Hér má sjá spjall okkar Sigurðar Más um áform stjórnar Eyris Invest.