Festi réði Ástu sem forstjóra komna sjö mánuði á leið - jafnrétti í reynd!

19. mars 2025
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button

Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi, er í stórfróðlegu og skemmtilegu spjalli í nýjasta hlaðvarpsþætti okkar Sigurðar Más; Hluthafaspjallinu á Brotkast.is. Þegar hún var í ráðningarviðtalinu þurfti stjórn Festi að horfast í augu við það að þau hjón væru með tvo ung börn og hún gengin sjö mánuði á leið með það þriðja.


Einhverjir kynnu að segja að aldrei væri karl spurður um þetta. Hvað um það; þetta er forstjórastarf í stórfyrirtæki sem krefst mikillar viðveru og vinnu - og hvort sem það eru gamaldags sjónarmið eða ekki þá hefði þessi staða getað verið ákveðin hindrun fyrir Ástu. En Festi hikaði ekki og réði hana sem forstjóra enda þekkti stjórnin auðvitað til hennar sem framkvæmdastjóra Krónunnar; eins dótturfyrirtækis Festi, og vissi hvað hún var að fá.


Ásta nýtti meðal annars fæðingarorlofið til að fara vel ofan í saumana á rekstri Lyfju og tók reksturinn út, enda fyrrum ráðgjafi McKinsey í Japan en þar bjó hún í þrjú ár. McKinsey er líklegast þekktasta ráðgjafafyrirtæki í heimi. Fljótlega eftir að Ásta kom úr fæðingarorlofinu keypti Festi Lyfju og segir hún að fyrirtækið falli mjög vel inn í rekstur Festi sem rekur m.a. N1, Krónuna, Elkó og Lyfju. Hún segir ennfremur að „strúktúr“ fyrirtækja sé aldrei endanlegur og í fyrirtækjarekstri sé ekkert sem heiti að stjórnendur séu búnir að einhverju því rekstur allra fyrirtækja sé í stöðugri þróun og skoðun.


„ÉG HEF VERIÐ HEPPIN MEÐ HEILSUNA“

En gefum Ástu orðið í Hluthafaspjallinu  hjá okkur Sigurði Má um ráðningu hennar með tvö lítil börn og það þriðja á leiðinni: „Auðvitað verð ég að segja að mér finnst stjórn fyrirtækisins hafa sýnt ákveðið hugrekki að taka þessa ákvörðun því það var ekkert gefið að þetta gengi upp. En ég hef verið heppin heilsufarslega séð að geta sinnt svo miklu starfi meðfram fjölskyldulífinu.


En það var nú einfaldlega þannig að forstjórastóllinn losnaði í Festi og ég hugsaði með mér, þótt ég hefði ekki verið nema tvö ár framkvæmastjóri Krónunnar, að þá hefði ég miklar skoðanir á Festi. Bolli, maðurinn minn, sagði þá við mig: Ásta mín, ég nenni nú eiginlega ekki að hlusta á þig tuðandi yfir einhverjum forstjóra sem hefur kannski aðrar skoðanir en þú - af hverju ferðu bara ekki og segir stjórninni hvaða framtíðarsýn þú hafir? Þá ertu alla vega búin að losa um það og getur haldið áfram í þínu hjá Krónunni? Ég bara lét slag standa og gerði það,“ segir Ásta. 


Í meðfylgjandi klippu er hægt að skoða myndbrot úr samtalinu.


Share by: