Áformað að byggja á Korpuvellinum. Það er fyllsta ástæða til að vekja athygli á færslu Þóru Þórsdóttur á FB-síðu Íbúa í Grafarvogi sl. föstudag. Hún bendir á að í kynningu borgarstjóra í nýliðinni viku hafi stórum byggingareit verið komið fyrir á æfingavellinum á Korpu.
Það var ekki orð um þetta á íbúafundinum um daginn og miðað við tillögurnar sem borgarstjóri kynnti fyrir nokkrum dögum líta margir Grafarvogsbúar svo á að búið sé að „lauma“ gímaldi - stórum íbúðakjarna - inn á golfvöllinn við Korpu miðað við þær teikningar sem Þóra birtir.
EKKI ORÐ Á FUNDINUM
Ekki orð á fundinum - en viku síðar birtist mynd sem sýnir að borgin kroppar land af Korpu-vellinum. Um er að ræða væna sneið af svonefndum Thors-velli sem er níu holur æfingavöllur og vinsæll af þeim sem eru að byrja í íþróttinni - og þeim sem vilja skjótast í golf í klukkutíma án þess að spila á aðalvellinum. Þarna eru sömuleiðis vinsælir hjólastígar og þetta er gott útivistarsvæði. Með þessum nýju byggingum hverfur fjallasýn þeirra sem byggja í Starenginu.
Viðbrögðin við færslu Þóru eru á einn veg - að þetta sé galið og komi verulega á óvart! Raunar er undarlegt að ekki hafi heyrst hljóð úr horni GR-inga vegna málsins því borgin er augljóslega að stíga stórt skref inn á golfvöllinn með byggingar - og óttast núna margir um afdrif Korpuvallar fyrst borgin er búin að taka fyrsta skrefið inn á völlinn. Hvað næst?
Þóra dregur hér hring utan um hið nýja gímald á Korpuvellinum - nýjan íbúðakjarna sem skyndilega birtist í kynningu borgarstjóra í nýliðinni vikunni en sást ekki á umtöluðum hitafundi með Grafarvogsbúum 20. mars. Hvers vegna voru þessi áform ekki kynnt á íbúafundinum? Er verið að laumupúkast með þetta?
Svona var þéttingin kynnt á íbúafundinum 20. mars. Hvorki stafkrókur né mynd af gímaldinu - nýjum, stórum íbúðakjarna á Thors-vellinum á Korpu.
ÉG FÉKK ÁFALL!
En hér kemur færsla Þóru sl. föstudag: „Ég var að horfa á kynningarfund borgarstjóra á netinu áðan og fékk áfall! Búið er að bæta við stórum byggingareit austan megin við Starengið hjá æfingavelli golfklúbbsins! Þetta kemur til með að taka alla fjallasýn af okkur hér í Starenginu og loka þetta annars fallega hverfi inn í múrkössum!
Ég bið ykkur íbúar Grafarvogs um að mótmæla þessu ásamt annarri þéttingu í Grafarvogi og standa vörð um náttúruna okkar.
Hægt er að senda mótmæli inná
skipulagsgatt.is“.
Horft til Korpuvallar af bílastæðinu við Bláu sjoppuna. Tveir byggingareitir blasa við. Til stendur að byggja á þessum litla bletti fyrir framan sjoppuna niður að hringtorginu og svo kemur nýja stóra gímaldið - nýi íbúðakjarninn - á golfvelli Korpu handan við Víkurveginn og birgir bæði ökumönnum og íbúum við Starengi sýn. Ekki var minnst á þessi áform á Korpuvellinum á eldheitum íbúafundi 20. mars. Hvers vegna ekki?
Annað sjónarhorn. Íbúar í brúnu húsunum við Starengið missa útsýnið þegar byggt verður á litla blettinum fyrir neðan Bláu sjoppuna - og svo missa þeir íbúar sem búa ofar við Starengið sömuleiðis fjallasýn þegar nýja gímaldið - nýi, stóri íbúðakjarninn inni á golfvellinum verður byggður.